Fann að ég var heitur

Björn Kristjánsson átti frábæra innkomu af bekknum í kvöld og …
Björn Kristjánsson átti frábæra innkomu af bekknum í kvöld og skoraði 19 stig, þar af fimm þrista. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég klikkaði á fyrsta skotinu en setti svo tvö í röð og þá fann ég að ég var orðinn heitur,“ sagði Björn Kristjánsson, leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir 108:93-sigur liðsins gegn Þór frá Þorlákshöfn í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld.. Björn kom inn af bekknum og skoraði 19 stig en KR vann einvígið gegn Þórsurum, 3:1, og er komið í úrslit.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá vissum við það að við gætum farið alla leið í úrslit þegar úrslitakeppnin hófst. Við erum í raun bara að sanna það að deildarkeppnin og úrslitakeppnin eru tveir ólíkir hlutir. Það skiptir máli að toppa á réttum tíma og við erum svo sannarlega að gera það núna.“

Björn hefur ekki fengið margar mínútur með KR í undanförnum leikjum en hann nýtti tækifæri sitt vel í kvöld.

„Mér finnst ég ekki hafa fengið að spila jafn mikið og ég hefði átt að vera að gera. Ég ákvað að sama skapi að líta í eigin barm og ég vissi að ég myndi fá tækifæri á einhverjum tímapunkti og þá var það undir mér sjálfum komið að nýta það og ég gerði það í dag.“

KR mætir annaðhvort ÍR eða Stjörnunni í úrslitum en Björn er ekki með neinn sérstakan óskamótherja.

„ÍR og Stjarnan eru tvö frábær lið og það skiptir engu máli hvaða mótherja við fáum. Þetta snýst um okkur sjálfa og við þurfum að vera 100% klárir,“ sagði Björn Kristjánsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert