Martin hættur með Tindastól

Israel Martin.
Israel Martin. mbl.is/Hari

Spænski þjálfarinn Israel Martin er hættur störfum sem þjálfari Tindastóls en körfuknattleiksdeild félagsins tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Martin hefur þjálfað Tindastól undanfarin tvö ár, eftir að hafa komið til félagsins í annað sinn, og liðið varð bikarmeistari 2018 undir hans stjórn. Liðið hafnaði í þriðja sæti Dominos-deildar karla í vetur en féll síðan nokkuð óvænt út gegn Þór frá Þorlákshöfn í átta liða úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.

Í tilkynningunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin í mestu vinsemd og báðir aðilar fari sáttir frá borði. Honum eru þökkuð góð og óeigingjörn störf fyrir körfuknattleiksdeildina.

mbl.is