Réðu illa við „gríska undrið“

Giannis Antetokounmpo er hér að troða boltanum ofan í körfuna.
Giannis Antetokounmpo er hér að troða boltanum ofan í körfuna. AFP

Giannis Antetokounmpo, eða gríska undrið eins og hann er oft kallaður, átti enn einn stórleikinn með Milwaukee Bucks þegar liðið sigraði Detroit Pistons 121:86 í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt.

Antetokounmpo skoraði 24 stig og tók 17 fráköst á þeim 24 mínútum sem hann kom við sögu í leiknum.

„Þetta var gaman. Við gerðum vel með því að spila fast og spila vel saman. Þjálfarinn sagði við okkur í hálfleik að vera samhentir og halda áfram að taka fráköstin og ég er virkilega áægður með sigurinn,“ sagði Antetokounmpo eftir leikinn.

Sjö leikmenn Milwaukee náðu tveggja stafa tölu í stigaskorun en George Hill kom næstur á eftir Antetokounmpo með 16 stig, Eric Bledsoe skoraði 15 og Brook Lopez og Khris Middleton voru með 14 stig hvor. Luke Kennard var stigahæstur í liði Detroit með 21 stig.

Portland bar sigurorð af Oklahoma 104:99. Damian Lillard var öflugur í liði Portland og skoraði 30 stig og C.J. McCollum var með 24. Paul Goerge var stigahæstur í liði Oklahoma með 26 stig og Russell Westbrook skoraði 24.

mbl.is