Stjarnan tryggði sér oddaleik

Sigurkarl Róbert Jóhannesson úr ÍR sækir að Stjörnumanninum Collin Pryor ...
Sigurkarl Róbert Jóhannesson úr ÍR sækir að Stjörnumanninum Collin Pryor í Breiðholtinu í kvöld. mbl.is/Hari

Stjarnan vann góðan 90:75-sigur á ÍR í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 2:2 og ræðst hvort liðið mætir KR í úrslitum í oddaleik í Garðabæ á fimmtudaginn kemur. 

Bæði lið voru búin að eiga nokkrar misheppnaðar sóknir þegar Gerald Robinson skoraði fyrstu körfu leiksins fyrir utan þriggja stiga línuna. Þá náðu Stjörnumenn áttum í sóknarleiknum og komust í 6:5. ÍR-ingar náðu ekki að jafna metin í fyrri hálfleiknum eftir það.

Spennustigið var mjög hátt og virtust ÍR-ingar ráða illa við þá staðreynd að liðið færi í úrslitaeinvígið með sigri. ÍR-ingar hittu illa og brutu mjög klaufalega af sér hvað eftir annað og Stjarnan fékk auðveldar körfur úr vítaskotum hinum megin.

Kevin Capers eyddi meiri orku í að ræða við dómara og aðra en að spila körfubolta og skoraði hann aðeins sex stig í fyrri hálfleik. Sem betur fer fyrir ÍR var Gerald Robinson að spila vel og skoraði hann 14 stig í hálfleiknum.

Ægir Þór Steinarsson var óstöðvandi framan af leik og skoraði hann 19 stig í fyrri hálfleik, 17 þeirra voru komin snemma í öðrum leikhluta. Eftir það tók Brandon Rozzell við og hitti hann afar vel síðari hluta fyrri hálfleiks og var hann kominn með 14 stig þegar hálfleiksflautan gall. Flautuþristur Rozzell gerði það að verkum að staðan í hálfleik var 48:36.

ÍR skoraði átta fyrstu stig seinni hálfleiks og breytti stöðunni í 48:44. Stjarnan skoraði hins vegar næstu tíu stig og kom muninum upp í fjórtán stig, 58:44. ÍR-ingar voru sterkir í lok leikhlutans og munaði átta stigum fyrir síðasta leikhlutann, 65:57. 

ÍR náði aldrei alvöruáhlaupi í fjórða leikhluta og var forskoti Stjörnumanna því ekki ógnað á lokakaflanum. Deildar- og bikarmeistarar Stjörnunnar geta því enn bætt við þriðja titlinum á tímabilinu. 

ÍR - Stjarnan 75:90

Hertz-hellirinn - Seljaskóli, Úrvalsdeild karla, 15. apríl 2019.

Gangur leiksins: 3:2, 7:8, 14:17, 16:26, 18:33, 24:35, 33:45, 36:48, 44:48, 44:58, 53:63, 57:65, 59:69, 66:76, 70:82, 75:90.

ÍR: Kevin Capers 21/5 fráköst, Gerald Robinson 21/17 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 15, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/11 fráköst, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 5, Sæþór Elmar Kristjánsson 4.

Fráköst: 26 í vörn, 11 í sókn.

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 34/7 fráköst/5 stoðsendingar, Brandon Rozzell 21/7 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 9/8 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 9, Antti Kanervo 6, Filip Kramer 5/8 fráköst, Collin Anthony Pryor 3/4 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 3.

Fráköst: 31 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Jóhannes Páll Friðriksson.

Áhorfendur: 1185

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

ÍR 75:90 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is