Ríkisborgararéttur yrði vissulega heiður

Danielle Rodriguez, leikmaður kvennaliðs Stjörnunar í körfuboltanum, var að vonum alls ekki hress með að tapa gegn Keflavík í kvöld, 85:69, í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Lítið er hægt að kvarta yfir hennar frammistöðu þar sem hún var efst í öllum helstu tölfræðiþáttum liðsins í kvöld og lagði allt í sölurnar. 

Það dugði þó ekki til og sagði Dani það alltaf erfitt að tapa síðasta leik tímabilsins. Danielle sagði Stjörnuna hafa átt flott tímabil og eru alltaf að bæta sig. Að fara í oddaleik við frábært lið eins og Keflavík væri glæsilegt í raun.

Danielle gat ekki svarað hvort hún yrði í Stjörnunni á næsta ári en hún er á sínu þriðja ári með Stjörnunni. Það lá því beinast við að spyrja um hvort hún myndi sækjast eftir ríkisborgararétt og sagði Dani að ef það myndi gerast væri það heiður fyrir hana. 

mbl.is