Allt undir í Garðabænum

Brandon Rozzell í baráttunni við Sigurður Gunnar Þorsteinsson, í fjórða …
Brandon Rozzell í baráttunni við Sigurður Gunnar Þorsteinsson, í fjórða leik liðanna í Seljaskóla. mbl.is/Hari

Það fer fram stórleiku í Mathús Garðabæjar höllinni í Garðabæ í kvöld þegar Stjarnan tekur á móti ÍR í oddaleik liðanna um laust sæti í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Staðan í einvíginu er 2:2 en það lið sem vinnur í kvöld mætir KR í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Það hefur verið hart tekist á í einvígi Stjörnunnar og ÍR en Stjarnan vann fyrsta leik liðanna í Garðabænum örugglega, 96:63. Breiðhyltingar voru fljótir að svara í Hertz Hellinum og unnu 9 stiga sigur, 85:76, og jöfnuðu þar með einvígið.

ÍR vann svo ótrúlegan baráttusigur í framlengdum leik í þriðja leik liðanna í Garðabænum, 68:62 og komust yfir í einvíginu, 68:62. Garðbæingar svöruðu um hæl í fjórða leiknum í Breiðholti og unnu sannfærandi sigur, 90:75.

Það er allt undir í Garðabænum í kvöld en það liðið sem tapar er komið í sumarfrí en liðið sem vinnur mætir eins og áður sagði KR í úrslitum. Vesturbæingar hafa unnið Íslandsmótið fimm ár í röð, en KR endaði í fimmta sæti deildarinnar.

Stjarnan endaði efsta sæti og eru ríkjandi deildarmeistarar en liðið lagði Grindavík örugglega í átta liða úrslitum. ÍR endaði í sjöunda sæti deildarinnar og hefur komið mikið á óvart í úrslitakeppninni en liðið lagði Njarðvík í átta liða úrslitum keppninnar en Njarðvíkingar enduðu í öðru sæti deildarkeppninnar.

mbl.is