Hilmar Smári til reynslu hjá Valencia

Hilmar Smári í leik með U20 ára landsliðinu.
Hilmar Smári í leik með U20 ára landsliðinu. Ljósmynd/FIBA

Hilmar Smári Henningsson, körfuboltamaðurinn stórefnilegi í liði Hauka, hefur fengið boð frá nýkrýndum Evrópubikarmeisturum Valencia frá Spáni að koma út til æfinga hjá liðinu.

Hilmar, sem verður 19 ára gamall síðar á árinu, verður við æfingar hjá spænska stórliðinu í næstu viku þar sem hann mun ásamt föður sínum ræða við forráðamenn liðsins um hugsanlegan samning.

Hilmar Smári sló rækilega í gegn með Haukum í Dominos-deildinni í vetur og var að flestra mati besti ungi leikmaðurinn í deildinni. Hann skoraði 14 stig, tók 4,2 fráköst og gaf 3,4 stoðsendingar að meðaltali á leiktíðinni.

Bakvörðurinn ungi var valinn efnilegasti leikmaður Hauka á lokahófi félagsins og stuðningsmenn völdu hann besta leikmann tímabilsins. Hilmar hefur spilað með öllum yngri landsliðunum og hefur þar verið í stóru hlutverki.

Voru víst búnir að ræða við Jón Arnór um mig

„Þetta kom mér mikið á óvart en þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni og spennandi að fá að æfa með einu af bestu liðum Evrópu. Ég vissi ekki að þeir væru að fylgjast með mér en þeir voru víst eitthvað búnir að vera að tala við Jón Arnór Stefánsson um mig,“ sagði Hilmar Smári í samtali við mbl.is.

Það er ekkert búið að tala um samning, fyrst þarf ég að fara þarna út og sýna hvað ég get. Vonandi næ ég að sýna hvað í mér býr og þá getur allt gerst. Ég er allavega mjög þakklátur og er hrikalega spenntur fyrir þessu tækifæri,“ sagði Hilmar Smári.

Hilmar í baráttu við Njarðvíkinginn Jeb Ivey.
Hilmar í baráttu við Njarðvíkinginn Jeb Ivey. Árni Sæberg

Valencia tryggði sér á dögunum sigur í Evrópubikarkeppninni með því að hafa betur gegn Martin Hermanssyni og félögum hans í þýska liðinu Alba Berlin í úrslitaeinvígi þar sem úrslitin réðust í oddaleik. Valencia vann oddaleikinn 89:63. Þetta var fjórði sigur Valencia í Evrópubikarnum en liðið vann keppnina 2003, 2010 og 2014. Valencia varð Spánarmeistari árið 2017 en er í fjórða sæt deildarinnar í dag.

Landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlynason er samningsbundinn Valencia. Hann samdi við liðið árið 2017 en var í fyrra lánaður til Obradorio sem leikur leikur einnig í spænsku 1. deildinni, ACB-deildinni eins og hún nefnist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert