ÍR í úrslit eftir sigur í oddaleik

Hlynur Bæringsson úr Stjörnunni og ÍR-ingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson eigast ...
Hlynur Bæringsson úr Stjörnunni og ÍR-ingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR leikur til úrslita við KR á Íslandsmóti karla í körfubolta eftir 83:79-sigur á Stjörnunni í oddaleik á útivelli í kvöld. ÍR vann einvígið 3:2, þrátt fyrir að liðið endaði í sjöunda sæti deildarinnar og að Stjarnan sé deildar- og bikarmeistari. 

Leikurinn var mjög jafn í fyrsta leikhluta og skiptust liðin á að komast yfir. Að lokum var Stjarnan einu stigi yfir eftir hann, 21:20. Bæði lið voru að spila þokkalega vörn, en að sama skapi voru liðin að hitta ágætlega. 

Stjarnan byrjaði betur í öðrum leikhluta og náði 29:21-forskot snemma í leikhlutanum. Þá tók Borche Ilevski, þjálfari ÍR, leikhlé og það kveikti heldur betur í hans mönnum. ÍR-ingar settu hverja þriggja stiga körfuna niður á fætur annarri. 

Hinum megin gekk illa að búa til góð færi fyrir bestu sóknarmenn Stjörnunnar og hitti Brandon Rozzell afar illa. Bandaríkjamaðurinn var aðeins með eitt stig í fyrri hálfleik á meðan Gerald Robinson, Kevin Capers og Matthías Orri Sigurðarson voru að skora hinum megin. Staðan í hálfleik var því 50:37, ÍR í vil. 

ÍR-ingar héldu áfram í upphafi seinni hálfleiks og þegar þriðji leikhluti var tæplega hálfnaður var munurinn orðinn 19 stig, 59:40. Stjörnumenn gáfust hins vegar ekki upp, þrátt fyrir mikið mótlæti og tókst heimamönnum að minnka muninn í tíu stig fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 68:58. 

Stjörnunni gekk illa að minnka muninn framan af í fjórða leikhluta. Sigurður Gunnar Þorsteinsson, miðherjinn mikilvægi hjá ÍR, fékk sína fimmtu villu og spilaði því ekki síðustu fimm mínúturnar. Stjörnumenn nýttu sér fjarveru hans og minnkuðu muninn í fjögur stig þegar 44 sekúndur voru til leiksloka. Nær koms Stjarnan hins vegar ekki og ÍR leikur til úrslita. 

Stjarnan - ÍR 79:83

Mathús Garðabæjar höllin, Úrvalsdeild karla, 18. apríl 2019.

Gangur leiksins:: 4:5, 7:9, 19:18, 22:21, 29:24, 33:32, 34:37, 37:50, 40:54, 46:64, 52:68, 58:68, 63:71, 65:75, 70:82, 79:83.

Stjarnan: Antti Kanervo 19, Hlynur Elías Bæringsson 16/11 fráköst/5 stoðsendingar, Collin Anthony Pryor 13, Brandon Rozzell 11/5 fráköst/6 stoðsendingar, Filip Kramer 8, Ægir Þór Steinarsson 6/9 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 6/5 fráköst.

Fráköst: 22 í vörn, 9 í sókn.

ÍR: Gerald Robinson 22/10 fráköst, Kevin Capers 20/4 fráköst/7 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 20/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9, Daði Berg Grétarsson 5, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 4, Hákon Örn Hjálmarsson 3.

Fráköst: 16 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Gardarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Áhorfendur: 1350

Stjarnan 79:83 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is