Meistararnir komust yfir gegn Clippers

Kevin Durant átti stórleik í nótt og skoraði 38 stig.
Kevin Durant átti stórleik í nótt og skoraði 38 stig. AFP

Golden State Warriors er komið í 2:1 í einvígi sínu gegn LA Clippers í sextán liða úrslitum bandarísku NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir 132:105-sigur gegn Clippers í Los Angeles í þriðja leik liðanna í nótt. Golden State byrjaði leikinn af miklum krafti og leiddi með 15 stigum í hálfleik en munurinn á liðunum í hálfleik var kominn upp í 21 stig og Clippers voru aldrei líklegir til þess að koma til baka eftir það.

Kevin Durant var magnaður í liði Golden State í nótt og skoraði 38 stig, tók fjögur fráköst og gaf 7 stoðsendingar og þá skoraði Stephen Curry 21 stig og tók fimm fráköst. Hjá LA Clippers var Ivica Zubac atkvæðamestur með 18 stig og fimmtán fráköst. Þá er Philadelphia 76ers einnig komið í 2:1 í einvígi sínu gegn Brooklyn Nets eftir 131:115-sigur 76ers í Brooklyn. Jafnræði var með liðunum, allt þangað til í fjórða leikhluta, en þá tókst 76ers loksins að hrista Nets-menn af.

Ben Simmons var atkvæðamestur í liði 76ers með 31 stig, fjögur fráköst og 9 stoðsendingar og Tobias Harris var næststigahæstur með 29 stig, sextán fráköst og þrjár stoðsendingar. D'Angelo Russell og Caris LeVert skoruðu báðir 26 stig fyrir Brooklyn Nets. San Antonio Spurs tókst að minnka muninn í 2:1 í einvígi sínu gegn Denver Nuggets í þriðja leik liðanna í San Antonio en leiknum lauk með tíu stiga sigri Spurs, 118:108.

Derrick White átti stórleik fyrir San Antonio og skoraði 36 stig, tók fimm fráköst og gaf 5 stoðsendingar og þá átti DeMar DeRozan frábæran leik og skoraði 25 stig, tók fjögur fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Nikola Jokic var stigahæstur í liði Denver Nuggets með 22 stig og átta fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert