Boston með pálmann í höndunum

Kyrie Irving, leikmaður Boston Celtics, skorar tvö af sínum 19 …
Kyrie Irving, leikmaður Boston Celtics, skorar tvö af sínum 19 stigum í leiknum. AFP

Boston Celtics er komið í 3:0 í einvígi sínu gegn Indiana Pacers í átta liða úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir 104:96-sigur Boston í Indiana í gær. Leikmenn Boston byrjuðu leikinn af miklum krafti og leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta. Pacers átti frábæran annan leikhluta og voru yfir í hálfleik, 61:59.

Boston komst sjö stigum yfir í þriðja leikhluta og lét forystu sína ekki af hendi í þeim fjórða. Stigaskor Boston-liðsins dreifðist mjög jafnt á leikmenn liðsins en Jaylen Brown var stigahæstur með 23 stig og sjö fráköst. Næstur á eftir honum kom Kyrie Irving með 19 stig og 10 stoðsendingar. Hjá Pacers var Tyreke Evans stigahæstur með 19 stig og tvö fráköst og þá skoraði Bojan Bogdanovic 15 stig. 

Toronto Raptos er komið í 2:1 í einvígi sínu gegn Orlando Magic eftir 98:93-sigur í Orlando í nótt. Jafnræði var með liðinum allan leikin en Toronto leiddi með þremur stigum í hálfleik. Pascal Siakam átti stórleik og skoraði 30 stig, tók ellefu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar fyrir Raptors. Hjá Orlando var Terrence Ross atkvæðamestur með 24 stig, þrjú fráköst og eina stoðsendingu.

Þá tókst Oklahoma City Thunder að minnka muninn í 2:1 gegn Portland Trail Blazers í Oklahoma en leiknum lauk með 120:108-sigri Thunder. Russell Westbrook var sem fyrr afar öflugur í liði Oklahoma en hann skoraði 33 stig, tók fimm fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Hjá Portland var Damian Lillard atkvæðamestur með 32 stig, fjögur fráköst og 6 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert