Alltaf aukaspenna í úrslitum

Guðbjörg Sverrisdóttir.
Guðbjörg Sverrisdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann fyrsta leikinn í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í kvöld, 75:63, gegn Keflavík á Hlíðarenda en heimakonur þurftu að hafa fyrir sigrinum. Mikil spenna var í leikmönnum í upphafi leiks og lítið skorað en Guðbjörg Sverrisdóttir, leikmaður Vals, segir það ekki hafa komið á óvart.

„Það er alltaf aukaspenna þegar kemur að úrslitunum. Staðan var 2:2 ansi lengi og ekki skorað í einhverjar fimm mínútur en leikmenn voru bara að venjast andrúmsloftinu sem er í kringum þessa keppni. Enginn þarf að hafa neinar áhyggjur af framhaldinu,“ bætti hún við í viðtali við mbl.is eftir leik en Valsarar færðu sig upp á skaftið eftir rólega byrjun og tóku góða forystu inn í hálfleik.

„Við spiluðum mjög góða vörn. Keflavík er með leikmenn sem geta búið til eitthvað fyrir liðið og skorað, við náum að stoppa þá í dag. Það verður erfitt að endurtaka það aftur.“

Þrátt fyrir að vera mest 16 stigum yfir misstu Valsarar forystuna niður er Keflavík jafnaði metin um miðjan þriðja leikhluta áður en Valsarar sneru taflinu aftur við og unnu að lokum sanngjarnt.

„Körfubolti er þannig íþrótt, þetta er leikur áhlaupa þó það sé klisjukennt að segja það. Um leið og einhver missir einbeitinguna þá er leikurinn fljótur að breytast og manni er refsað.“

Þið þurfið þó væntanlega að spila aðeins betur til að vinna í Keflavík?

„Alveg klárlega, þær eru sterkar á heimavelli og það er erfitt að vinna Keflavík í Keflavík, en það er líka mjög gaman. Við mætum tilbúnar og einbeittar í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert