Þær eru búnar að svínhitta í allan vetur

Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Frammistaðan var misjöfn, við mætum flatar til leiks og spennustigið kannski ekki rétt stillt. Það tek ég á mig,“ sagði Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, eftir 75:63-tap gegn Val í fyrsta leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik.

Keflvíkingar áttu erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik og voru mest 16 stigum undir en náðu góðu áhlaupi eftir hlé og tókst meðal annars að jafna metin.

„Svo kemur allt annað lið til leiks í seinni hálfleik og við náum að jafna metin. Svo gerum við mistök sem verða til þess að þær koma aftur yfir, þá verður þetta erfitt. Við höldum áfram að gera mistök og missum aðeins trúna. Þegar þú gerir svona mörg mistök gegn svona góðu liði þá er þér bara refsað.“

„Varnarleikurinn í síðari hálfleik var nokkuð góður en þær fá að taka mörk fráköst og Heather [Butler] fékk mikið pláss til að draga upp að körfunni, við þurfum að skoða það.“

„Það er auðvitað erfitt að eiga við Heather, hún er þvílíkt fljót. En við erum pínu klaufar, sérstaklega þegar við vorum búin að jafna metin. Þetta er röð mistaka í fjórða leikhluta sem leiðir til að þær sigla þessu heim.“

Þá voru Keflvíkingar að hitta nokkuð illa úr sínum færum og segir Jón að leikmenn þurfi að hafa meiri trú á sér þegar þeir komast í fær, sérstaklega í ljósi þess hve vel Valsarar hitta iðulega úr sínum skotum.

„Þær svínhitta og búnar að gera það í allan vetur og við þurfum að hafa meiri trú á því að skotin okkar fara niður þegar við skjótum, við fáum fullt af færum sem við setjum ekki ofan í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert