„Ég vildi vera þarna“

Matthías Orri Sigurðarson er búinn að fara á kostum í ...
Matthías Orri Sigurðarson er búinn að fara á kostum í úrslitakeppninni líkt og ÍR-liðið allt. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér leið bara mjög vel. Ég vildi vera þarna. Þetta er eitt af verkefnunum þegar maður er leiðtogi liðs,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson eftir að hafa sýnt stáltaugar á vítalínunni þegar hann kom ÍR í framlengingu gegn KR í kvöld.

Matthías skoraði úr báðum vítaskotum sínum þegar tæpar 4 sekúndur voru eftir af leiknum og jafnaði metin í 77:77. ÍR vann svo í framlengingunni og er því komið í 1:0 í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.

„Ég fann engan sjálfsefa. Ég vissi bara að það þyrfti að sigla þessu inn og að svo yrði alvöru fjör að komast í framlengingu,“ sagði Matthías yfirvegaður en vitaskuld hæstánægður með sigur ÍR-inga:

„Fyrst og fremst var þetta bara ótrúlega mikill vilji sem við sýndum í kvöld. Okkur langaði rosalega mikið að vera hérna og fannst rosalega gaman að spila körfubolta. Það tryggði okkur sigurinn. Við höfðum trú á þessu allan tímann og vissum að við þyrftum að vinna hérna einhvern tímann. Eins og seríurnar hafa verið hjá okkur er reyndar ansi líklegt að við þurfum að vinna hérna aftur í oddaleik,“ sagði Matthías léttur í bragði.

„Okkur líður rosalega vel í svona jöfnum leikjum. Við viljum halda stigaskorinu niðri, þar sem að ein eða tvær körfur geta sveiflað sigrinum. Að sama skapi er ekkert unnið núna. Við förum á okkar heimavöll núna í aðeins betri stöðu. En við þurfum að vinna tvo leiki í viðbót og vitum að svona reynslumiklir menn eins og í KR, með svona mikla hæfileika, koma bandbrjálaðir í Hellinn á föstudaginn. Við þurfum að finna lausnir til að tækla það, og ég hef fulla trú á því, en fyrst og fremst þurfum við að mæta með orku og gleði,“ bætti hann við.

mbl.is