Enginn orðinn saddur í Breiðholtinu

Matthías Orri Sigurðarson með boltann en til varnar eru Kristófer …
Matthías Orri Sigurðarson með boltann en til varnar eru Kristófer Acox og Björn Kristjánsson. mbl.is/Árni Sæberg

Úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik hefst í kvöld þegar Íslandsmeistarar KR og ÍR mætast í fyrsta úrslitaleiknum í DHL-höll þeirra KR-inga.

KR-ingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm síðustu árin og í 17 skipti samtals. ÍR hefur 15 sinnum orðið Íslandsmeistari en 42 ár eru liðin frá því liðið vann titilinn síðast.

Mbl.is tók púlsinn á Matthíasi Orra Sigurðarsyni sem hefur verið frábær í liði ÍR-inga í úrslitakeppninni en ÍR-ingar hafa á leið sinni í úrslitaeinvígið slegið út Stjörnuna og Njarðvík, liðin sem höfnuðu í 1. og 2. sæti í deildinni.

„Við erum fullir sjálfstrausts og erum tilbúnir að leggja allt í sölurnar og sjá svo til hvað kemur út úr því. Við höfum náð að hvíla okkur vel eftir leikina við Stjörnuna og höfum notað síðustu daga til að kortleggja KR-liðið. Við erum komnir með ágæta mynd af því hvernig við ætlum að byrja árásina á þá og vonandi virkar það,“ sagði Matthías við mbl.is.

Svona velgengni endist ekki að eilífu

ÍR þurfti oddaleiki til að slá bæði Njarðvík og Stjörnuna út en KR-ingar fóru aðeins auðveldari leið í úrslitin en þeir unnu Keflavík 3:0 og Þór Þorlákshöfn 3:1.

„KR-ingarnir hafa spilað færri leiki en ég held að það sé bara fínt fyrir okkur að hafa spilað fleiri leiki en þeir. Við erum vel undirbúnir fyrir lokarimmuna og vitum hvað við erum að fara út í. Við berum hæfilega mikla virðingu fyrir því hvað KR stendur fyrir og hvað liðið hefur afrekað á síðustu árum. Að sama skapi verðum við einhvern veginn að tengja inn í okkur að svona velgengni endist ekki að eilífu.

Af hverju ættum það ekki að vera við sem ryðjum KR úr vegi og tökum af þeim titilinn? Það er enginn orðinn saddur í Breiðholtinu. Við þurfum að vinna þrjá leiki til að skrifa nýja sögu og það er virkilega mikil löngun til staðar hjá okkur að fara alla leið. Ég held að við séum búnir að finna formúluna sem virkar fyrir okkur. Það er mikil orka, gleði og liðsheild,“ sagði Matthías Orri.

Spurður hvort hann sé búinn að fá einhver ráð frá Jakobi stóra bróður sínum fyrir rimmuna gegn KR sagði Matthías;

„Nei ekki eins og er. Hann er reyndar vonandi sjálfur að koma sér í lokaúrslitin með liði sínu í Svíþjóð. Ef það er eitthvað sem mig vantar þá er auðvelt að bjalla í hann. “

Flautað verður til leiks í DHL-höllinni klukkan 19.15 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert