Höfum ekki spilað við ÍR í þessum ham

Jón Arnór Stefánsson reynir skot með Sigurð Gunnar Þorsteinsson til …
Jón Arnór Stefánsson reynir skot með Sigurð Gunnar Þorsteinsson til varnar. mbl.is/Eggert

„Það var sárt að þetta færi í framlengingu,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, fyrirliði KR, eftir tapið gegn ÍR í framlengdum fyrsta leik einvígisins um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld.

„Við misstum Mike út af á sama augnabliki [í lok venjulegs leiktíma] og þurftum þá að fara í fimm mínútur án hans, orðnir nokkuð þreyttir. Það kom samt kannski á óvart að við værum yfir þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum miðað við hvernig við spiluðum. Við viljum meina að við eigum helling inni eins og allir sáu í dag. Þeir voru baráttuglaðari en við, tóku helling af sóknarfráköstum og lausum boltum sem að duttu þeirra megin í dag því þeir voru baráttuglaðari og ferskari. Það var einhver „finals“-skrekkur í okkur í byrjun leiks, við mættum aðeins ferskari í seinni hálfleik, en þeir áttu svör. Við vorum klaufar oft á tíðum, en þeir eiga hrós skilið því þeir voru góðir,“ sagði Jón.

Jón og félagar halda í Breiðholt á föstudagskvöld í annan leik einvígisins en vinna þarf þrjá leiki til að landa titlinum eins og KR-ingar eru sennilega ágætlega meðvitaðir um eftir að hafa afrekað það fimm ár í röð:

„Við missum núna heimavallarrétt, sem við áttum svo sem ekkert skilinn eftir frammistöðuna í deildinni, en við erum ekkert í hrikalega slæmri stöðu. Við höfum spilað marga pressuleiki í gegnum tíðina, unnið á útivelli og heimavelli. Liðin eru bara að þreifa hvort á öðru. Við höfum ekki spilað við ÍR í þessum ham. Við munum skoða þá vel á vídjói núna og finna svör við þeirra varnarleik. Við þurfum að skerpa á þeim smáatriðum í okkar varnarleik sem við klikkuðum á í dag, og við þurfum að gera það sjálfir, en hvað sóknina varðar þurfum við að fara aðeins yfir málin.“

mbl.is