ÍR tók frumkvæðið í framlengingu

ÍR-ingurinn Trausti Eiríksson sækir að körfu KR þar sem Helgi …
ÍR-ingurinn Trausti Eiríksson sækir að körfu KR þar sem Helgi Már Magnússon er til varnar. mbl.is/Eggert

ÍR-ingar léku sinn fyrsta leik í úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld og unnu sigur á KR í Vesturbænum í sannkölluðum spennutrylli, 89:83, eftir framlengingu.

Matthías Orri Sigurðarson kom ÍR í framlengingu með því að sýna stáltaugar á vítalínunni og jafna metin með tveimur vítum þegar þrjár sekúndur voru eftir, 77:77. Í framlengingunni var áfram jafnt á öllum tölum þar til að Sigurður Gunnar Þorsteinsson kom ÍR yfir þegar hálf mínúta var eftir. Julian Boyd fékk svo dæmd á sig skref þegar KR virtist við það að jafna metin, og þess í stað skoruðu ÍR-ingar tvær körfur til viðbótar á lokasekúndunum.

Fögnuður ÍR-inga var ósvikinn í leikslok þar sem þeir glöddust með fjölmörgum, háværum stuðningsmönnum sínum sem halda nú áfram að fagna eftir að hafa horft á sína menn slá út liðin sem urðu í 1. og 2. sæti í deildinni í vetur, Stjörnuna og Njarðvík.

Það var vel við hæfi að leikurinn í kvöld færi í framlengingu því hann var allan tímann jafn og spennandi. Enginn skjálfti var í gestunum úr Breiðholti í upphafi leiks þrátt fyrir að um sögulegan leik væri að ræða, þann fyrsta sem ÍR spilar í úrslitum frá því að úrslitakeppnin var sett á laggirnar árið 1984. Liðið hélt áfram að sýna þann öfluga varnarleik sem liðið sýndi þegar það sló út Njarðvík og Stjörnuna á leið sinni í úrslitin. ÍR var sex stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 20:14, og náði mest átta stiga forskoti í fyrri hálfleiknum, 40:32. KR náði hins vegar að laga stöðuna áður en liðin gengu til búningsklefa, ekki síst fyrir framgöngu Pavels Ermolinski en hann skoraði 10 stig í fyrri hálfleik og var sem fyrr sterkur í vörn. Staðan í hléi var þó 44:40 gestunum í vil.

KR komst fljótlega yfir í þriðja leikhlutanum en spennan var áfram mikil. Matthías Orri sá til þess að ÍR væri einu stigi yfir fyrir lokafjórðunginn, 63:62. Matthías sýndi svo stáltaugar í lok venjulegs leiktíma þegar hann fór á vítalínuna eftir klaufalegt brot Michele Di Nunno sem þar með lauk leik. Þá voru aðeins 3,7 sekúndur eftir og KR tveimur stigum yfir, en Matthías skoraði af miklu öryggi úr báðum vítum sínum og jafnaði metin, 77:77. Jón Arnór Stefánsson var nálægt því að tryggja KR sigur, sem og Julian Boyd, en boltinn dansaði á hringnum og grípa þurfti til framlengingar eins og fyrr segir.

Vinna þarf þrjá leiki til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Liðin mætast næst á heimavelli ÍR í Seljaskóla á föstudagskvöld kl. 20 og þriðji leikurinn verður í Vesturbænum mánudagskvöldið 29. apríl. Ef þess gerist þörf mætast liðin 2. maí og svo 5. maí ef til oddaleiks kemur.

KR - ÍR 83:89

<p>DHL-höllin, Úrvalsdeild karla, 23. apríl 2019.</p>

Gangur leiksins:: 6:4, 6:10, 14:12, 14:20, 21:24, 28:30, 32:38, 40:44, 44:46, 54:50, 58:56, 62:63, 66:69, 70:71, 74:75, 77:77, 81:82, 83:89.

KR: Jón Arnór Stefánsson 16, Kristófer Acox 16/11 fráköst, Julian Boyd 15/9 fráköst/6 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 15/11 fráköst/7 stoðsendingar, Michele Christopher Di Nunno 11, Helgi Már Magnússon 5, Emil Barja 3, Björn Kristjánsson 2.

Fráköst: 28 í vörn, 10 í sókn.

ÍR: Kevin Capers 28/6 fráköst, Gerald Robinson 21/6 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/10 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Matthías Orri Sigurðarson 12/6 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 5/6 fráköst, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 4, Daði Berg Grétarsson 3, Trausti Eiríksson 2.

Fráköst: 29 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Leifur S. Gardarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 1.450

KR: Michele Di Nunno, Kristófer Acox, Finnur Atli Magnússon, Björn Kristjánsson, Jón Arnór Stefánsson, Helgi Már Magnússon, Vilhjálmur Kári Jensson, Orri Hilmarsson, Emil Barja, Pavel Ermolinskij, Sigurður Á. Þorvaldsson, Julian Boyd.

ÍR: Ólafur Björn Gunnlaugsson, Gerald Robinson, Kevin Capers, Matthías Orri Sigurðsson, Trausti Eiríksson, Hákon Örn Hjálmarsson, Daði Berg Grétarsson, Hjalti Friðriksson, Benoný Svanur Sigurðsson, Sæþór Elmar Kristjánsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, Sigurkarl Róbert Jóhannesson.

Jón Arnór Stefánsson reynir skot að körfu ÍR í leiknum …
Jón Arnór Stefánsson reynir skot að körfu ÍR í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert
KR 83:89 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is