Valur í 2:0 eftir spennuleik

Valur er með 1:0 forystu eftir sigur í fyrsta leiknum …
Valur er með 1:0 forystu eftir sigur í fyrsta leiknum á sínum heimavelli. mbl.is/Árni Sæberg

Valur komst í 2:0 þegar Keflavík og Valur mættust í öðru leik liðanna í úrslitum Dominosdeildar kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Valur sigraði 100:96 eftir spennandi leik.

Leikið var í Keflavík að þessu sinni en Valskonur sigruðu fyrstu viðureign liðanna í einvíginu á mánudaginn sl.  Eftir hreint út sagt ótrúlegan leik þar sem hittni leikmanna var eitthvað sem undirritaður hefur ekki séð þá er Valur í kjörstöðu í rimmunni.  

Leikurinn fór fjörlega af stað svo ekki sé meira sagt.  Í úrslitaseríum er að öllu jöfnu lagt ofurkapp á varnarleik en óhætt er að segja að hann vék fyrir ótrúlegum sóknarleik beggja liða. Bæði lið komin í 50 stig í hálfleik og hittni úr þriggjastiga skotum þá rétt rúm 50% hjá báðum liðum.  Hreint ótrúlegt en eitthvað varð að láta undan  hefði maður haldið eftir þessar óvæntu fyrstu 20 mínútur leiksins. 

Brittanny Dinkins, sem hafði varla verið skugginn af sjálfri sér í fyrsta leiknum, fór mikinn og var komin með 16 stig í fyrri hálfleik. Gríðarlega mikilvægt fyrir Keflavík sem varð fyrir blóðtöku þegar í ljós kom fyrir leik að Salbjörg Sævarsdóttir myndi ekki getað leikið vegna ökklameiðsla. 

Keflavík hafði ákveðin tök á leiknum allt fram í síðasta leikhluta þegar Valskonur gengu á lagið og náðu forystu sem þær létu ekki af hendi og lönduðu  mikilvægum sigri.  Það verður líkast til eitthvað rætt um þennan leik fram á sumar enda í raun magnaður þegar tekið af mið af skori og hittni leikmanna.  Það er erfitt að taka út einn leikmann sem sá um þetta fyrir lið sitt en þetta skrímsli sem að Valsliðið er, og er leitt áfram af Helenu Sverrisdóttir, er líkast til eitt það sterkasta frá upphafi.  Alltaf eru til leikmenn sem stíga fram ef aðrir eru ekki að ná sér á strik en í jöfnunni er alltaf ein festa og sú festa er Helena Sverrisdóttir.  Ef hún er ekki að skora fyrir lið sitt er hún líkt og dreifingamiðstöð og matar félaga sína. 

Keflavík á erfitt verkefni og í raun nánast ómögulegt, að sigra Val í þremur leikjum í röð.  Keflavík gerði það í síðasta einvígi en með fullri virðingu fyrir Stjörnunni þá er þetta allt annað prógram. 

Nú eru tveir dagar í frí hjá liðunum til að ná andanum og svo heldur einvígið á Hlíðarenda þar sem Valur getur tryggt sér íslandsmeistaratitilinn. 

Keflavík - Valur 96:100

Blue-höllin, Úrvalsdeild kvenna, 24. apríl 2019.

Gangur leiksins:: 8:8, 17:13, 22:19, 25:24, 31:31, 37:36, 46:42, 53:50, 60:53, 66:58, 71:64, 76:69, 81:79, 83:90, 89:94, 96:100.

Keflavík: Brittanny Dinkins 39/8 fráköst/7 stoðsendingar, Sara Rún Hinriksdóttir 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 12, Þóranna Kika Hodge-Carr 8, Erna Hákonardóttir 8, Bryndís Guðmundsdóttir 4/6 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2.

Fráköst: 23 í vörn, 5 í sókn.

Valur: Helena Sverrisdóttir 35/10 fráköst/8 stoðsendingar, Heather Butler 27/6 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 12/5 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 11, Bergþóra Holton Tómasdóttir 6, Simona Podesvova 6/15 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 3.

Fráköst: 26 í vörn, 15 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 158

Keflavík 96:100 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is