Hildur lagði Barcelona í lykilleik

Hildur Björg Kjartansdóttir í landsleik.
Hildur Björg Kjartansdóttir í landsleik. mbl.is/Hari

Hildur Björg Kjartansdóttir landsliðskona í körfuknattleik steig skref í átt að efstu deild á Spáni í kvöld þegar lið hennar, Celta Zorka frá Vigo, lagði Barcelona að velli í framlengdum leik í úrslitakeppni B-deildarinnar á Tenerife.

Lokatölur urðu 84:79 fyrir Celta eftir að staðan var 68:68 að loknum venjulegum leiktíma. Hildur var óvenjuróleg í stigaskorun en hún gerði 2 stig og tók 2 fráköst í leiknum og spilaði í tæpar 20 mínútur.

Átta lið leika til úrslita á Tenerife, um tvö laus sæti í efstu deild, og er skipt í tvo fjögurra liða riðla. Celta leikur annað kvöld við heimaliðið Ciudad de los Adelantados, sem vann Leganés í kvöld, 69:50. Tvö efstu liðin í þessum riðli leika til úrslita á sunnudag við tvö efstu liðin í hinum riðlinum þar sem ræðst hverjir fara upp um deild.

Celta vann sinn riðil í B-deildinni í vetur á sannfærandi hátt en hinn riðilinn vann Campus Promete og Ciudad de los Adelantados varð í öðru sæti.

Hér má sjá Hildi skora sína körfu í leiknum í kvöld:

Og hér fagna leikmenn Celta sigrinum:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert