Houston áfram - meistararnir töpuðu heima

James Harden reynir skot fyrir Houston í leiknum í nótt …
James Harden reynir skot fyrir Houston í leiknum í nótt en Royce O'Neale er til varnar hjá Utah. AFP

Houston Rockets er komið í undanúrslit Vesturdeildar NBA í körfuknattleik eftir sigur á Utah Jazz, 100:93, í fimmta leik liðanna sem fram fór í Houston í Texas í nótt.

Houston  vann þar með einvígið 4:1 og hefur því slegið Utah út tvö ár í röð.

James Harden var að vanda í aðalhlutverki hjá Houston en hann skoraði 26 stig, tók 6 fráköst og átti 6 stoðsendingar. Clint Capela skoraði 15 stig. 

Hjá Utah Var Royce O'Neale með 18 stig og Ricky Rubio 17.

Meisturum Golden State tókst ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitum Vesturdeildar því þeir töpuðu á heimavelli fyrir Los Angeles Clippers, 121:129. Golden State er með forystu, 3:2, í einvíginu.

Lou Williams átti stórleik fyrir Clippers og var með 33 stig og 10 stoðsendingar. Danilo Gallinari skoraði 26 stig og Montrezi Harrell 24.

Kevin Durant átti svakalegan leik með Golden State og skoraði 45 stig, tók 6 fráköst og átti 6 stoðsendingar. Stephen Curry skoraði 24 stig og Klay Thompson 22 en framlag annarra leikmanna meistaranna var sáralítið.

Houston mætir annaðhvort Golden State eða Clippers í undanúrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert