Ég hreinlega trúi því ekki

Björn Kristjánsson sækir að vörn ÍR í kvöld.
Björn Kristjánsson sækir að vörn ÍR í kvöld. mbl.is/Hari

Björn Kristjánsson lagði svo sannarlega sitt af mörkum fyrir Íslandsmeistara KR þegar þeir náðu að knýja fram hreinan úrslitaleik við ÍR um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik eftir sigur í Hertz hellinum í kvöld.

Björn skoraði 14 stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur, á þeim rúmum 32 mínútum sem hann lék í leiknum í kvöld.

„Það kom ekki til greina að tapa þessum leik og sú hugsun var aldrei til staðar hjá okkur. Við byrjum leikinn af krafti en það er alltaf eins með okkur. Við misstum smá einbeitingu og ÍR-ingar voru fljótir að nýta sér það og koma sér inn í leikinn. Á þessum kafla fengu þeir alltof auðveldar körfur og ÍR-ingarnir eru drullugóðir í því að refsa. Það þarf að vera með hundrað prósent allan tímann á móti þeim,“ sagði Björn við mbl.is eftir leikinn.

Allir leikirnir í einvíginu hafa unnist á útivelli en síðasta orrustan í úrslitaeinvíginu fer fram á heimavelli KR-inga á laugardagskvöldið þar sem þeir geta unnið sjötta Íslandsmeistaratitil sinn í röð.

„Það getur ekki verið að við töpum þriðja heimaleiknum í röð. Ég hreinlega trúi því ekki og það kemur ekkert annað til greina en vinna á laugardaginn. Umgjörðin í kringum þessa úrslitarimmu hefur verið hreint mögnuð en oddaleikur um titilinn í DHL-höllinni verður ekki stærri og betri. Ég vil meina að reynsla okkar og sigurhefð muni ráða úrslitunum á laugardaginn,“ sagði Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert