Emil settur inn á til að sparka í Capers

Borche Ilievski.
Borche Ilievski. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Það eru nánast 0 prósent líkur á að hann spili. Vinstri handleggurinn á honum er brotinn," sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, um Kevin Capers í samtali við mbl.is í dag.

Capers, sem er einn besti leikmaður ÍR, handleggsbrotnaði í fjórða leik liðsins við KR í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta í gærkvöldi. Hann missir því af oddaleiknum sem fram fer annað kvöld kl. 20. 

„Hann klikkaði á skoti í gær og kom svo til mín og sagðist hafa meitt sig. Hann átti að fara í myndatöku í gærkvöldi en sjúkraþjálfarinn vildi bíða með það þangað til í dag, svo hann gæti hvílt sig betur eftir leikinn. Hann fór svo til læknis í dag og þá kom í ljós að hann er handleggsbrotinn," 

Eins og gefur að skilja er Ilievski svekktur að vera án síns besta leikmanns fyrir oddaleik um Íslandsmeistaratitil. 

„Hann er mjög vonsvikinn og við líka. Við viljum að bestu leikmenn beggja liða séu með í oddaleikjum og þetta er leiðinlegt. Við munum gera okkar besta án hans."

Brutu illa og kvörtuðu svo

Ilieveski var svo allt annað en sáttur við KR-inga í gær og hvernig þeir tóku á Capers. 

„KR-ingarnir lögðu upp með þetta frá byrjun. Leikmenn, eins og Emil Barja, voru settir inn á sérstaklega til að kýla og sparka í Kevin. Það vita allir að hann er skapstór.

Þeir brutu mjög illa á honum allan leikinn og fóru svo til dómaranna að kvarta yfir leikaraskap. Þeir gefa honum slæmt orðspor. Ég stend með honum og hann er alls ekki með leikaraskap. Hann er með mikið keppnisskap og er afar góður leikmaður," sagði Ilievski. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert