Jón Arnór gæti haldið áfram

Jón Arnór á ferðinni í síðasta leiknum í gærkvöldi.
Jón Arnór á ferðinni í síðasta leiknum í gærkvöldi. mbl.is/Hari

Jón Arnór Stefánsson, fyrirliði Íslandsmeistara KR, segist ekki hafa tekið ákvörðun um framhaldið á sínum ferli. Hann tjáði mbl.is að hann hefði hlaupið á sig fyrr í vetur þegar hann ýjaði að því að tímabilinu sem lauk í gær yrði líklega hans síðasta. 

Jón hefur þó ekki ákveðið að halda áfram en segist ætla að leyfa sumrinu að koma áður en hann tekur ákvörðun. Hann segir að fari svo að hann haldi áfram þá gæti hann þurft að sætta sig við að vera öðruvísi leikmaður en hann var. Þar á Jón við að hann var sérlega snöggur og bjó yfir miklum hraðabreytingum lengst af ferilsins. 

„Ég gaf það eiginlega út að þetta yrði líklega síðasta tímabilið sem voru mistök. En það verður erfitt að slíta sig frá búningsklefanum og félagsskapnum. Ég hef heyrt frá mönnum sem hafa lagt skóna á hilluna að erfitt sé að slíta sig frá þessu og geri mér grein fyrir því. Slíkar tilfinningar eru farnar að banka upp á hjá mér. Ef hugurinn verður í lagi og ég sætti mig við að vera orðinn hægari og öðruvísi leikmaður þá kem ég kannski bara inn í næsta tímabil,“ sagði Jón þegar mbl.is ræddi við hann í gær. 

Jón segir vendipunkt tímabilsins að hans mati hafa verið frammistöðu KR í fjórða leiknum í úrslitarimmunni gegn ÍR þegar KR jafnaði 2:2.

„Ég myndi segja að vendipunkturinn hafi verið fjórði leikurinn þegar við vorum með bakið upp við vegg verandi 1:2 undir. Þá ætluðum við alls ekki að horfa til baka. Þá komu gæðin og reynslan í ljós. Aðdragandinn að þeirri góðu spilamennsku var hins vegar allt of langur. Við vorum enn að ströggla rétt fyrir úrslitakeppnina sem endurspeglaði okkar stöðu í deildinni eftir deildakeppnina. Við þóttum ekki sigurstranglegastir fyrir úrslitakeppnina en við vorum ekkert hræddir við það. Við vissum að það eru gæði í liðinu og vissum að þetta myndi smella einhvern tíma. Við unnum Keflavík nokkuð sannfærandi. Við lentum í smá basli gegn Þór en erum miklu betra lið og fórum í gegnum þá hindrun. Við erum með meiri gæði en ÍR-liðið með fullri virðingu fyrir þeim en þeir áttu frábæra úrslitakeppni. Við vorum klaufar að vinna ekki fyrsta og þriðja leikinn en sýndum ofboðslega mikinn styrk í fjórða leiknum.“

Jón Arnór tekur við bikarnum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar …
Jón Arnór tekur við bikarnum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert