„Risaáskorun fyrir mig“

Björn Kristjánsson og Ingi Þór Steinþórsson fagna sigrinum í gærkvöldi. …
Björn Kristjánsson og Ingi Þór Steinþórsson fagna sigrinum í gærkvöldi. Pavel Ermolinskij stendur fyrir aftan Björn. mbl.is/Hari

Björn Kristjánsson lét til sín taka hjá KR í úrslitarimmunni gegn ÍR. Um tíma fékk hann lítið að spreyta sig og viðurkennir að hafa verið orðinn fúll yfir stöðunni.

„Eftir leikina gegn Keflavík í 8-liða úrslitunum vissi ég ekki hver mín staða var innan liðsins. Þar fékk ég bara tilgangslausar mínútur. Það voru lítil samskipti á milli mín og þjálfarans. En ég vissi að á einhverjum tímapunkti gætu orðið forföll eða við myndum mæta liði þar sem hentaði betur að vera með mig inn á. Fyrir mig var risaáskorun að halda mér á tánum í mánuð til þess að vera tilbúinn fyrir átök eins og úrslitarimmuna. Það er að skila sér og er mjög sætt. Ég var auðvitað orðinn fúll enda vill maður spila. Það er ömurlegt að sitja á bekknum og þá sérstaklega þegar stemningin er orðin eins og hún er í úrslitakeppninni. Maður vill vera inni á og hjálpa liðinu. Ég var því hundfúll en horfði um leið í eigin barm og var tilbúinn þegar kallið kom,“ sagði Björn þegar mbl.is tók hann tali eftir að bikarinn fór á loft í gærkvöldi. 

Björn sagðist hafa fundið í lok deildakeppninnar að KR væri að finna taktinn. „Eftir síðustu fjóra leikina í deildakeppninni leit þetta betur út. Þá unnum við til dæmis Stjörnuna sem gaf okkur smá sjálfstraust. Við vissum að Keflavík hentaði okkur vel og við tókum þá í þremur leikjum sem voru samt erfiðir. Eftir það töldum við að við værum enn þá bestir,“ sagði Björn. 

Björn Kristjánsson.
Björn Kristjánsson. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert