Tímabært að fara út fyrir þægindahringinn

Baldur Þór Ragnarsson.
Baldur Þór Ragnarsson. mbl.is/Hari

Baldur Þór Ragnarsson var í gær kynntur til leiks sem nýr þjálfari körfuknattleiksliðs Tindastóls á Sauðárkróki til næstu þriggja ára.

Hann tekur við af Israel Martin sem lét af störfum eftir að Tindastóll féll úr úrslitakeppninni í átta liða úrslitum í síðasta mánuði eftir tap fyrir Þór frá Þorlákshöfn í oddaleik liðanna á Sauðárkróki. Baldur Þór stýrði einmitt Þórsliðinu í umræddum leik og þótti fara það einstaklega vel úr hendi.

„Tindastóll hefur gert vel í mörg ár og er auk þess stórt félag í íslenskum körfuknattleik. Þess vegna þykir mér spennandi að taka við liðinu,“ sagði Baldur Þór í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Eftir að hafa verið í Þorlákshöfn alla mína tíð og fannst vera kominn tími til að fara út fyrir þægindahringinn þegar sóst var eftir starfskröftum mínum hjá öðru liði. Breyta til. Setja meiri pressu á sjálfan mig sem þjálfara þar sem ég hef ákveðnar hugmyndir um hvernig eigi að leika leikinn,“ sagði Baldur sem er 29 ára gamall. Hann verður áfram aðstoðarlandsliðsþjálfari í karlaflokki samhliða starfi sínu hjá Tindastóli.

Baldur Þór tók við sem aðalþjálfari Þórs í Þorlákshöfn fyrir ári eftir að hafa verið í þrjú ár þar á undan aðstoðarþjálfar Einars Árna Jóhannssonar hjá Þór.

Baldur Þór segir að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að halda áfram með Þórsliðið. Sér hafi staðið það til boða en að vel athuguðu máli hafi það verið sitt mat að hann hafi gott af tilbreytingunni og að vinna í nýju umhverfi. „Ég hef unnið með meistaraflokki Þórs árum saman þótt ég hafi aðeins verið síðasta árið sem aðalþjálfari. Ég er og hef verið ánægður í Þorlákshöfn hjá mjög góðu félagi. Hér þekki ég allt. Þegar maður hefur metnað til þess að skipta um umhverfi er rétt að láta á það reyna þegar færi gefst til.“

Sjá allt viðtalið við Baldur á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert