Israel Martin tekur við Haukum

Frá vinstri: Bragi Magnúson formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, Stefán Þór Borgþórsson …
Frá vinstri: Bragi Magnúson formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, Stefán Þór Borgþórsson nýráðinn framkvæmdastjóri deildarinnar, Israel Martin og Vilhjálmur Steinarsson styrktarþjálfari. Ljósmynd/Haukar

Spánverjinn Israel Martin mun taka við karlaliði Hauka og verður gengið frá ráðningunni í dag. Martin staðfesti þetta við RÚV í dag. 

Samkvæmt RÚV mun Martin gera þriggja ára samning við Hauka en hann lét af störfum hjá Tindastóli í vor. Martin gerði Tindastól að bikarmeisturum í fyrra og er það eini stóri titill félagsins í meistaraflokki í körfuknattleik. 

Martin tekur við af Ívari Ásgrímssyni sem stýrt hefur Haukum undanfarin ár. Haukar höfnuðu í 10. sæti í vetur og voru með mikið breytt lið frá tímabilinu 2016-2017 þegar liðið fór í undanúrslit. 

Samkvæmt heimildum mbl.is er mjög líklegt að Emil Barja snúi aftur til Hauka. 

Uppfært kl.15:17: Haukar hafa staðfest ráðningu á Israel Martin til næstu þriggja ára á heimasíðu félagsins en þar kemur;

Aðspurður sagðist Israel vera mjög ánægður að vera kominn til starfa hjá eins stóru og flottu félagi og Haukar eru. Hann sé þakklátur fyrir það tækifæri sem félagið er að gefa honum og er mjög spenntur fyrir næsta vetri. Hann segir að fjölskyldan njóti þess að búa á Íslandi og vilji hvergi annarsstaðar vera.

Bragi Magnússon, formaður kkd. Hauka, sagðist vera himnilifandi með að Haukar hafi ráðið til sín vel metinn og reynslu mikinn þjálfara sem Israel Martin er. Hann segir það lýsa þeim metnaði sem Haukar ætla að halda áfram að leggja í starfið og hlakkar mikið til samstarfsins við Israel og áframhaldandi uppbyggingar til næstu ára.

mbl.is