Meistarahjartað slær enn

Steve Kerr þjálfari Golden State Warriors.
Steve Kerr þjálfari Golden State Warriors. AFP

Undanfarin fjögur ár hafa yfirburðir Golden State Warriors oft tekið spennuna úr úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik þótt Cleveland hafi náð að merja sigur fyrir þremur árum.

Sú staða virtist þó vera að breytast í ár eins og bent hefur verið á í þessum dálkum undanfarnar vikur. DeMarcus Cousins, stjörnumiðherji liðsins, meiddist í upphafi úrslitakeppninnar og leikmennirnir á varamannabekknum voru ekki eins góðir og undanfarin ár. Þar á ofan virtust bæði Klay Thompson og Stephen Curry vera orðnir þreyttir – eða svo virtist skotnýting þeirra gefa til kynna. Til að bæta gráu ofan á svart meiddist svo Kevin Durant – besti leikmaður deildarinnar undanfarnar vikur – í fimmta leik liðsins gegn Houston Rockets í annarri umferðinni.

Án þessara tveggja lykilleikmanna voru næstum öll svokölluð „NBA-talandi höfuð“ á því að Houston myndi ganga á lagið í rimmu liðanna og loks ná að slá út meistarana eftir að hafa verið slegnir út af Warriors á þremur af síðustu fjórum árum.

Maður í manns stað

Einhver gleymdi að færa leikmönnum Golden State þessi skilaboð. Curry tók sig til og leiddi liðið til sigurs á síðustu fjórtán mínútum fimmta leiksins, og í þeim sjötta í Houston á föstudag komu meistararnir næstum öllum á óvart og unnu þann leik líka, þrátt fyrir það að Curry hefði verið stigalaus í fyrri hálfleiknum – mest vegna villuvandræða. Hann setti 33 stig í seinni hálfleiknum í góðum sigri Warriors.

Fyrir þann leik var mikið rætt í fjöl- og samfélagsmiðlum að nú væri loks komið tækifæri fyrir önnur lið að eiga tækifæri á meistaratitlinum. Allt í einu voru Houston, Portland, Milwaukee og Toronto farin að hugsa gott til glóðarinnar.

Það var þá sem meistarahjartað fór að segja til sín.

„Við höfum heyrt þessar raddir allt keppnistímabilið,“ sagði varnarjaxlinn Draymond Green eftir sigurinn gegn Houston. „Varamannabekkurinn hjá okkur er of veikur. Við höfum engan til að fylla skarðið sem Kevin [Durant] skilur eftir sig, og við erum orðnir of þreyttir eftir barninginn undanfarin fjögur ár. Í kvöld sýndu varamennirnir okkar að þetta mat var rangt í mikilvægasta leik keppnistímabilsins til þessa.“

Grein Gunnars í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert