Forsetinn vann gegn Hannesi

Hannes S. Jónsson var aðeins einu atkvæði frá því að …
Hannes S. Jónsson var aðeins einu atkvæði frá því að halda sæti í stjórn FIBA Europe. mbl.is/Ófeigur

Forseti körfuknattleikssambands Evrópu sendi hluta fulltrúa á þingi sambandsins í München um helgina skilaboð þess efnis að þeir ættu „100% ekki“ að kjósa Hannes S. Jónsson, formann KKÍ, í stjórn sambandsins.

Frá þessu greinir Hannes á samfélagsmiðlum og birtir skjáskot af skilaboðum sem Tyrkinn Turgay Demirel mun hafa sent frá sér. Demirel var um helgina endurkjörinn forseti FIBA Europe til næstu fjögurra ára. Hannes var hins vegar einu atkvæði frá því að fá áframhaldandi sæti í stjórn sambandsins, þar sem 23 sæti voru í boði en 37 einstaklingar í kjöri.

Hannes hefur skrifað pistil á Facebook þar sem hann segir meðal annars: „Forseti sem talaði um lýðræði, einingu í Evrópu og traust á milli aðila í ræðu sinni fyrir endurkjöri ætti hið minnsta að reyna að vinna eftir því. Hann aftur á móti sendir skilaboð á hluta aðildarlandanna um hverja á EKKI að kjósa. Hann má alveg hafa lista yfir þá sem hann myndi vilja fá inn í stjórnina. En að hafa lista yfir nöfn nokkurra einstaklinga sem þú sem forseti í alþjóðlegum samtökum villt EKKI hafa í stjórninni er bara eitthvað svo galið. FIBA og FIBA Europe eru samtök sem setja leikreglur fyrir fallegstu íþrótt í heimi hafa nú forseta FIBA Europe sem svífst einskis að fara á bakvið fólk og lofa embættum fyrir atkvæði er í mínum huga fáránlegt.“

Hannes segir það ekkert leyndarmál að Ísland hafi ekki stutt Turgay í kosningum en heldur aldrei látið það trufla sig eftir að hann varð forseti árið 2014 og Hannes kosinn í stjórn sama ár. Eðlilegt sé að menn séu ekki alltaf sammála og sem fulltrúi Íslands hafi KKÍ unnið með Turgay að mörgum góðum málum en einnig gagnrýnt og tjáð sig um ýmislegt sem vitað væri að félli ekki í góðan jarðveg hjá forsetanum.

Hannes bendir jafnframt á að nú eigi Norðurlöndin engan fulltrúa í stjórn FIBA Europe. KKÍ studdi hinn belgíska Cyriel Coomans, fráfarandi varaforseta FIBA Europe, í kjöri til forseta en Coomans fékk 23 atkvæði gegn 27 atkvæðum Demirel. Pistil Hannesar má sjá hér að neðan.

mbl.is