„Sterkur vesturbæingur í mér“

Matthías Orri Sigurðarson í leik á móti KR í úrslitakeppninni.
Matthías Orri Sigurðarson í leik á móti KR í úrslitakeppninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Já þessi ákvörðun var erfið að einhverju leyti enda erfitt að fara frá ÍR á þessum tímapunkti,“ segir körfuknattleiksmaðurinn Matthías Orri Sigurðarson sem í dag gekk aftur í raðir uppeldisfélagsins KR eftir nokkurra ára fjarveru. Segir hann það hafa haft áhrif á ákvörðunina að fá tækifæri til að spila með Jakobi bróður sínum. 

Jakob Örn Sigurðarson og Brynjar Þór Björnsson snúa einnig heim í uppeldisfélagið eins og Matthías sem átt hefur góð ár hjá ÍR þar sem hann fékk stórt hlutverk. 

„Þegar maður hugsar til þess hvernig síðasta tímabil endaði þá er erfitt að fara frá ÍR. En þegar ég hafði gert upp við mig hvað ég vildi gera þá var ekki erfitt að klára málið. Það er skipti miklu máli að geta spilað með Jakobi vegna þess að við höfum aldrei spilað saman. Ég næ þá alla vega einu tímabili með honum áður en hann hrekkur upp af, gamli maðurinn. Auk þess býr sterkur vesturbæingur í mér og hefur alltaf gert þótt ég hafi spilað með ÍR. Ég hef horft til þess í nokkurn tíma að snúa aftur í KR en hingað til hefur mér ekki fundist tímasetning vera rétt. Nú fannst mér vera rétti tíminn og ég er ánægður með ákvörðunina.“

KR hefur orðið meistari sex ár í röð og nú síðast eftir sigur gegn Matthíasi og samherjum hans í ÍR í úrslitum. Er ekki KR í þeirri stöðu að allt annað en sigur á Íslandsmótinu myndi teljast vonbrigði? 

„Jú ég held að við séum að koma okkur í þá stöðu. Ég myndi halda að heilbrigða markmiðið væri að koma sér alla vega í alla úrslitaleikina. En ég og þú vitum báðir að í slíkum leikjum getur allt gerst. Miðað við mannskapinn og persónurnar í liðinu þá ættum við að kunna vel við okkur í slíkum aðstæðum,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson þegar mbl.is ræddi við hann á blaðamannafundi í dag. 

Sagðist hann ekki hafa fengið fyrirspurnir frá mörgum liðum og einungis ÍR og KR hafi komið til greina hjá sér. „Ég vil spila fyrir félag sem skiptir mig miklu máli og eins og staðan er í dag eru það ÍR og KR.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert