Stjarnan dregur kvennaliðið úr efstu deild

Danielle Rodriguez hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins síðustu ár …
Danielle Rodriguez hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins síðustu ár með Stjörnunni. mbl.is/Hari

Stjarnan mun ekki tefla fram liði í efstu deild kvenna í körfuknattleik á næsta tímabili heldur mun félagið senda lið til leiks í 1. deild. Þessi ákvörðun stjórnar körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar var tilkynnt í dag.

Í tilkynningu segir að ástæðan sé helst sú að fjórir af fimm byrjunarliðsleikmönnum síðasta tímabils verða ekki með liðinu næsta vetur. Stjarnan hafnaði í þriðja sæti deildarinnar á liðnu tímabili og komst því í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þar sem nokkuð vantar upp á að Stjarnan geti skipað liðið með uppöldum Stjörnuleikmönnum væri eina úrræði Stjörnunnar að fá erlenda leikmenn, eða leikmenn frá öðrum liðum, í þeirra stað. Stjórn Kkd. Stjörnunnar metur það svo að heppilegra sé að hlúa betur að yngri iðkendum Stjörnunnar og leggja grunn að liði sem gæti spilað í úrvalsdeild innan fárra ára,“ segir í tilkynningunni.

Liðið mun treysta á fjölda leikmanna sem eru í félaginu á aldrinum 15-18 ára sem hafa fengið fáar mínútur í efstu deild. „Með því að spila með liði í 1. deild fá þessir leikmenn hins vegar bæði þá reynslu og samkeppni sem þær þurfa til að eflast sem leikmenn,“ segir í tilkynningu, en ekki var um auðvelda ákvörðun að ræða.

„Þessi ákvörðun var ekki auðveld og þær forsendur sem liggja að baki henni bar brátt að. Stjórn Kkd. Stjörnunnar tók hana hins vegar með hag iðkenda og stöðu kvennakörfubolta í Stjörnunni í huga og að vandlega athuguðu máli.“

mbl.is