Toronto einum sigri frá meistaratitlinum

Leikmenn Toronto fagna sigrinum í nótt.
Leikmenn Toronto fagna sigrinum í nótt. AFP

Meistararnir í Golden State Warriors eru heldur betur komnir í vandræði í úrslitaeinvíginu gegn Toronto Raptors um NBA-meistaratitilinn í körfuknattleik.

Liðin áttust við í fjórða úrslitaleiknum á heimavelli Golden State í Oakland í nótt þar sem Toronto hafði betur 105:92. Toronto er þar með komið í 3:1 og getur tryggt sér meistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins á heimavelli á mánudaginn.

Kawhi Leonard skoraði 36 stig fyrir Toronto og tók 12 fráköst, Serge Ibaka skoraði 20 stig og Pascal Siakam 19. Klay Thompson var stigahæstur í liði Golden State með 28 stig, Stephen Curry skoraði 27 og Draymond Green var með 10 stig og tók 12 fráköst.

Aðeins einu sinni í 34 ára sögu úrslitakeppni NBA hefur liðið tekist að vinna meistaratitilinn eftir að hafa lent 3:1 undir en það gerðist árið 2016 þegar Cleveland með LeBron James í broddi fylkingar vann Golden State í úrslitaeinvíginu 4:3.

„Það kemur til með að verða brjáluð stemning í Toronto á mánudaginn. Við höfum ekkert talað neitt sérstaklega hver staðan er í einvíginu. Við vitum að Golden State er frábært lið og við vitum hversu hart við þurfum að spila til að vinna það,“ sagði Nick Nurse þjálfari Toronto eftir leikinn.

„Þetta er ekki búið. Við munum berjast áfram og reyna að komast yfir þennan hjalla. Við erum enn á lífi og eigum möguleika á að vinna,“ sagði Stephen Curry eftir leikinn.

Stuðningsmenn Toronto fagna sigrinum í Toronto í nótt.
Stuðningsmenn Toronto fagna sigrinum í Toronto í nótt. AFP
mbl.is