Shouse spilar með Álftnesingum

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Álftaness, Justin Shouse og Huginn Freyr, formaður ...
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Álftaness, Justin Shouse og Huginn Freyr, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness. Ljósmynd/Álftanes

Körfuknattleiksdeild Álftaness hefur fengið til liðs við sig Justin Shouse, sem er vel kunnur öllum körfuboltaunnendum hér á landi. Justin dregur nú skóna af hillunni, þar sem þeir hafa verið frá árinu 2017, og reimar þá á sig í búningi Álftaness sem mun leika í 1. deild á komandi tímabili. Justin er 37 ára leikstjórnandi og á að baki glæstan feril í íslenskum körfubolta frá árinu 2004.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá körfuknattleiksdeild Álftaness og þar kemur enn fremur fram:

Justin er uppalinn í borginni Erie í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og hefur leikið körfubolta alla sína ævi. Þar gekk hann í Mercyhurst-háskólann og útskrifaðist þaðan með kennaragráðu, samhliða því að spila körfubolta með háskólaliðinu. Haustið 2004 tók hann að sér að vera spilandi þjálfari fyrir Drang í Vík í Mýrdal, sem hann gerði og af kostgæfni og skoraði að meðaltali 44 stig í leik það tímabil.

Eftir öflugt tímabil með Drangi fengu Snæfellingar í Stykkishólmi hann til liðs við sig. Þar var hann í lykilhlutverki þegar liðið landaði fyrsta bikarmeistaratitli sínum árið 2008. Tímabilið á eftir færði Justin sig til Stjörnunnar í Garðabæ þar sem hann varð bikarmeistari þrisvar.

Nú tekur við nýr kafli á ferli Justins, hann hefur gengið til liðs við öflugt lið Álftaness sem mun leika í 1. deild á komandi tímabili. Þar mun hann spila undir stjórn Hrafns Kristjánssonar, líkt og hann gerði hjá Stjörnunni frá 2014 þar til hann lagði skóna á hilluna árið 2017.

„Í kjölfar þess að Justin fékk grænt ljós frá læknum varðandi að leika körfubolta aftur er þetta eitthvað sem við höfum rætt upp á síðkastið. Hann hefur aldrei verið fyllilega sáttur við að hafa ekki getað endað sinn feril hér á Íslandi á sínum forsendum og sér hér tækifæri til að taka alla vega eitt tímabil með okkur og taka þátt í því spennandi verkefni sem við erum að vinna hérna. Leikmaður og karakter eins og hann kemur alltaf til með að hjálpa liðinu mikið og hann verður leikmönnum okkar mikill stuðningur í þessu fyrsta tímabili Álftaness í fyrstu deild,“ segir Hrafn Kristjánsson þjálfari Álftaness.

mbl.is