KR klófestir Rodriguez

Danielle Victoria Rodriguez verður áfram á Íslandi.
Danielle Victoria Rodriguez verður áfram á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Danielle Rodriguez, sem slegið hefur í gegn með körfuknattleiksliði Stjörnunnar síðustu ár, er gengin í raðir KR. Stjarnan dró sem kunnugt er lið sitt úr efstu deild á dögunum og mun spila í 1. deild að ári og mun Rodriguez halda kyrru fyrir á Íslandi nema færa sig í Vesturbæinn.

Ridriguez skoraði að meðaltali 25,5 stig, tók 10,9 fráköst og gaf 8,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í Dominos-deildinni í fyrra og hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar síðustu ár.

„Þar sem Stjarnan dró kvennaliðið úr deildinni ákvað ég að spila með KR á næsta tímabili eftir að félagið sýndi mér áhuga. Ég er virkilega spennt að spila mitt fjórða tímabil á Íslandi með KR. Ég hef verið í kringum leikmannahópinn áður, Benna þjálfara og fólkið í starfinu hjá KR og veit að mér á eftir að líða eins og heima hjá mér,“ segir Rodriguez í tilkynningu KR-inga.

Áður hafði KR krækt í Sóllilju Bjarnadóttur frá Breiðabliki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert