Williamson verður andlit Pelicans

Zion Williamson glaðbeittur í Barclays Center í nótt.
Zion Williamson glaðbeittur í Barclays Center í nótt. AFP

Eins og við var að búast nýtti New Orleans Pelicans sér fyrsta valrétt til að velja Zion Williamson í nýliðavalinu í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Williamson sló rækilega í gegn sem leikmaður Duke-háskólans í vetur og var mættur ásamt móður sinni, klæddur hvítum jakkafötum, til að sjá hvað verða vildi í New York í gærkvöld.

„Ég reiknaði aldrei með að ég yrði í þessari stöðu. Ég væri ekki hérna nema vegna móður minnar. Ég vil bara þakka henni. Hún hætti að eltast við sína drauma og setti mína drauma í forgang,“ sagði Williamson.

Williamson, sem skoraði 22,6 stig að meðaltali á sinni einu leiktíð fyrir Duke, tók 8,9 fráköst og gaf 2,1 stoðsendingu, verður 19 ára gamall í næsta mánuði. Honum er ætlað að leiða lið Pelicans og verða andlit félagsins eftir að Anthony Davis var skipt til Los Angeles Lakers um síðustu helgi, fyrir leikmenn og valrétti.

Ja Morant úr Murray State háskólanum var valinn númer tvö í nótt og fer til Memphis Grizzlies. Kanadíski leikmaðurinn RJ Barrett varð svo fyrri valinu hjá New York Knicks sem átti þriðja valrétt.

Rui Hachimura varð svo fyrsti japanski leikmaðurinn til þess að vera valinn í fyrstu umferð nýliðavals en hann var valinn níundi af Washington Wizards. Aðeins tveir japanskir leikmenn hafa spilað í NBA-deildinni, þeir Yuta Tabuse og Yuta Watanabe.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert