Leikirnir kvennamegin oft betri en karlamegin

Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Hauka, er á leið inn í …
Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Hauka, er á leið inn í sitt annað tímabil sem þjálfari liðsins. mbl.is/Hari

„Stefnan fyrir næstu leiktíð er að fara alla leið í úrslitakeppnina og vonandi berjast um titla,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag.

„Ég tel mig vera með mjög góðan og breiðan hóp af íslenskum leikmönnum og stemningin í liðinu er mjög góð. Það verður ánægjulegt að spila heimaleikina í Ólafssal á næsta tímabili og ég er fyrst og fremst mjög spennt fyrir komandi tímabili. Ég kom algjörlega óreynd inn í þetta í fyrra þegar ég tek við liðinu og ég hef breyst mikið sem þjálfari á þessu eina ári. Stelpurnar hafa kennt mér mikið sem og Ívar Ásgrímsson sem var duglegur að aðstoða mig á síðustu leiktíð. Ég hef mun skýrari mynd á það hvað það er sem við viljum gera í Hafnarfirðinum á næstu leiktíð og við erum meira en tilbúnar í átökin sem framundan eru.“

Haukar urðu Íslandsmeistarar vorið 2018 en liðið hafnaði í sjötta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og missti af sæti í úrslitakeppninni. Markmiðið í Hafnarfirði er að gera mun betur í ár.

„Ég vona að deildin verði jafnari í ár og að fleiri lið verði dugleg að styrkja sig. Valur eru náttúrulega ríkjandi Íslands-, deildar- og bikarmeistarar. KR er komið með frábært lið, Keflavík eru alltaf sterkar og Snæfell hefur á að skipa mjög góðu liði. Ég hef lítið heyrt af Skallagrími í sumar en ég veit að Grindavík mætir með ungt og efnilegt lið til leiks og þær verða erfiðara við að eiga. Við teljum okkur vera með gott lið líka og ég á því von á hörku baráttu þegar nær dregur vetri.“

Stjarnan ákvað að draga kvennalið sitt úr keppni í efstu deild í byrjun júní sem er slæm þróun fyrir kvennakörfuna en Ólöf hvetur fólk til þess að mæta á leiki í vetur og styðja við bakið á stelpunum.

Kvennaboltinn á Íslandi hefur alltaf verið öflugur og það eru ekki nema sjö ár síðan að ég var síðast að spila fyrir fullu húsi. Við viljum ekki taka skref afturábak heldur viljum við horfa fram vegin en þróunin hefur kannski ekki gengið alveg nægilega hratt að mínu mati. Það eru ákveðnir fordómar fyrir kvennakörfunni og maður hefur heyrt fólk tala um að það sé ekki nægilega skemmtilegur bolti spilaður þar. Þetta er allt fólk sem þarf að drífa sig á leiki því það er mjög gaman að horfa á leiki í úrvalsdeild kvenna. Stelpur skilja körfuboltann vel og oft á tíðum eru leikirnir kvennamegin betri en karlamegin. Við þurfum að draga úr fordómum, mæta á leiki og hvetja stelpurnar okkar áfram,“ sagði Ólöf Helga í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert