Durant að semja við Brooklyn Nets

Kevin Durant.
Kevin Durant. AFP

Kevin Durant, einn besti skorarinn í NBA-deildinni í körfubolta, mun gera fjögurra ára samning við Brooklyn Nets á næstu dögum. Hann kemur til Brooklyn frá Golden State Warriors. Að sögn ESPN munu Kyrie Irving og DeAndre Jordan einnig ganga í raðir Brooklyn.

Durant hefur tvisvar verið valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar og var hann stærsta nafnið á lista yfir samningslausa leikmenn deildarinnar.

Óvíst er hvenær Durant getur snúið aftur á völlinn, en hann meiddist illa í leik með Golden State gegn Toronto Raptors í lokaúrslitum NBA-deildarinnar á dögunum. 

Durant skoraði 26 stig, tók 6,4 fráköst og gaf 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur. Hann skoraði svo 32,3 stig, tók 7,7 fráköst og gaf 4,5 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni. 

Kyrie Irving kemur til Brooklyn frá Boston Celtics. Irving skoraði 22,2 stig að meðaltali í leik með Boston í vetur, en hann varð meistari með Cleveland Cavaliers árið 2016. 

Brooklyn fær DeAndre Jordan frá New York Knicks. Jordan skoraði 10,9 stig að meðaltali með New York á tímabilinu, en hann hefur einnig leikið með Dallas Mavericks og L.A. Clippers. 

mbl.is