Golden State að fylla skarð Durant

D'Angelo Russell er að ganga til liðs við Golden State ...
D'Angelo Russell er að ganga til liðs við Golden State Warriors. AFP

Körfuknattleikskappinn Kevin Durant ákvað í nótt að ganga til liðs við Brooklyn Nets í bandarísku NBA-deildinni. Durant kemur til félagsins frá Golden State Warriors þar sem hann hefur tvívegis orðið meistari á þeim þremur árum sem hann hefur spilað með liðinu, árin 2017 og 2018.

Þá var hann einnig valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í bæði skiptin sem Golden State fagnaði sigri. ESPN greinir frá því að Golden State sé að krækja í D'Angelo Russell sem var með lausan samning eftir að hafa spilað með Brooklyn Nets frá árinu 2017. Russell mun yfirgefa Brooklyn þar sem félagið tryggði sér þjónustu Kyrie Irving í nótt.

Russell skoraði 21,1 stig að meðtali í deildinni í vetur, tók fjögur fráköst og gaf sjö stoðsendingar en hann var valinn í stjörnulið Austurdeildarinnar á þessari leiktíð. Golden State fór alla leið í úrslit NBA-deildarinnar í vor þar sem liðið tapaði fyrir Toronto Raptors. 

mbl.is