Golden State að fylla skarð Durant

D'Angelo Russell er að ganga til liðs við Golden State …
D'Angelo Russell er að ganga til liðs við Golden State Warriors. AFP

Körfuknattleikskappinn Kevin Durant ákvað í nótt að ganga til liðs við Brooklyn Nets í bandarísku NBA-deildinni. Durant kemur til félagsins frá Golden State Warriors þar sem hann hefur tvívegis orðið meistari á þeim þremur árum sem hann hefur spilað með liðinu, árin 2017 og 2018.

Þá var hann einnig valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í bæði skiptin sem Golden State fagnaði sigri. ESPN greinir frá því að Golden State sé að krækja í D'Angelo Russell sem var með lausan samning eftir að hafa spilað með Brooklyn Nets frá árinu 2017. Russell mun yfirgefa Brooklyn þar sem félagið tryggði sér þjónustu Kyrie Irving í nótt.

Russell skoraði 21,1 stig að meðtali í deildinni í vetur, tók fjögur fráköst og gaf sjö stoðsendingar en hann var valinn í stjörnulið Austurdeildarinnar á þessari leiktíð. Golden State fór alla leið í úrslit NBA-deildarinnar í vor þar sem liðið tapaði fyrir Toronto Raptors. 

mbl.is