Stórleikur Ástu Júlíu dugði skammt

Íslenska U18 ára landslið kvenna í körfuknattleik.
Íslenska U18 ára landslið kvenna í körfuknattleik. Ljósmynd/KKÍ

Ásta Júlía Grímsdóttir átti sannkallaðan stórleik fyrir U18 ára landslið kvenna í körfuknattleik þegar liðið tapaði fyrir Portúgal, 65:49, í öðrum leik sínum á EM sem fram fer í Norður-Makedóníu.

Ísland var yfir eftir fyrsta leikhluta, 14:13, en tapaði þeim næsta með tíu stigum og Portúgal var því yfir í hálfleik 31:22. Ísland minnkaði muninn eftir hlé, en í fjórða leikhluta var portúgalska liðið sterkara og vann að lokum 65:49.

Ásta Júlía var stigahæst á vellinum með 26 stig, auk þess sem hún tók flest fráköst allra á vellinum eða 11 talsins. Anna Ingunn Svansdóttir kom næst með 11 stig og átta fráköst. Þá tók Eygló Kristín Óskarsdóttir tíu fráköst fyrir íslenska liðið.

Ísland tapaði fyrir Tyrklandi í fyrsta leik sínum á föstudag, 103:43, og mætir Sviss næst á þriðjudag.

Ásta Júlía Grímsdóttir.
Ásta Júlía Grímsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert