Spánverjar í söguleg fótspor

Spánverjar fagna Evrópumeistaratitlinum.
Spánverjar fagna Evrópumeistaratitlinum. AFP

Spænska kvennalandsliðið í körfuknattleik fagnaði í gærkvöldi sínum öðrum Evrópumeistaratitli í röð eftir sigur á Frökkum í úrslitaleik í Belgrad, 86:66.

Þetta er í fjórða sinn í röð sem Frakkar fá silfurverðlaun um hálsinn, en þeir unnu keppnina síðast fyrir áratug. Spánverjar hafa hins vegar unnið þrjár af síðustu fjórum Evrópukeppnum og minna á sig sem stórveldi í körfuboltaheiminum.

Það er óhætt að segja að Spánverjar hafi fetað í söguleg fótspor með því að verja titil sinn, því það hefur engu liði tekist frá árinu 1991. Þá unnu Sovétríkin í síðasta sinn, en það var raunar 17. titillinn í röð eftir samfellda sigurgöngu frá árinu 1960. Sovétríkin unnu alls 20 Evrópumeistaratitla, en Spánverjar eru nú komnir í annað sætið yfir flesta titla með fjóra talsins. Rússar, sem höfnuðu í 8. sæti mótsins í ár, koma næstir með þrjá titla á bakinu.

Heimakonur frá Serbíu unnu bronsverðlaun eftir sigur á Bretlandi í leiknum um þriðja sætið, 81:55, en þetta var í fyrsta sinn sem Bretar komast svona langt á Evrópumóti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert