Kristófer með nýjan samning

Kristófer Acox í leik með KR.
Kristófer Acox í leik með KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfuknattleik, skrifaði í dag undir nýjan samning við Íslandsmeistara KR til tveggja ára. Þetta kemur fram á Facebooksíðu Böðvars Guðjónssonar formanns körfuknattleiksdeildar KR.

Kristófer var í lykilhlutverki hjá Vesturbæingum í vetur þegar þeir unnu meistaratitilinn sjötta árið í röð eftir magnaða frammistöðu í úrslitakeppninni, en liðið hafði endað í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar.

Kristófer, sem er 25 ára gamall, skoraði að meðaltali 14,2 stig og tók 9,7 fráköst í leik með KR-liðinu á tímabilinu en hann var valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar í mótslok. Hann hefur ávallt leikið með KR þegar hann hefur verið á Íslandi, en hóf síðasta tímabil með Denain Voltaire í frönsku B-deildinni og sneri aftur til KR í nóvember. Þá hefur hann spilað með Star Hotshots á Filippseyjum og með Furman-háskóla í Bandaríkjunum.

Þá er Kristófer lykilmaður í íslenska landsliðinu og hefur spilað 40 landsleiki fyrir Íslands hönd.

mbl.is