„Fann strax fyrir trausti“

Jón Axel Guðmundsson
Jón Axel Guðmundsson mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var geggjuð frammistaða hjá okkur í vörn og sókn. Mér fannst varnarleikurinn hjá okkur skapa sóknarleikinn,“ sagði Jón Axel Guðmundsson eftir stórsigurinn gegn Portúgal í forkeppni EM 2021 í Laugardalshöll í dag. 

Jón Axel var stigahæstur með 22 stig í sigri Íslands 96:68. „Við spiluðum hörku vörn og sáum að þeir urðu hræddir. Það gaf okkur sjálfstraust og við vorum einnig grimmir í sókninni.“

Ísland náði fínu forskoti strax í fyrsta leikhluta og að loknum fyrri hálfleik var staðan 44:30. Íslenska liðið slakaði aldrei á og jók muninn jafnt og þétt. 

„Miðað við hvað við erum með ungt lið, og erum að ganga í gegnum kynslóðaskipti, þá finnst mér geggjað að sjá þetta. Við vorum yfir í hálfleik sem var vel gert en komum ennþá klikkaðri í síðari hálfleik og kláruðum dæmið,“ sagði Jón sem setti niður fimm þriggja stiga skot í leiknum og þar af voru fjögur í þriðja leikhluta. 

„Boltinn datt loksins ofan í hjá mér en hann hefur ekki verið að gera það. Hann gerði það í dag og vonandi er þetta það sem koma skal en ég er vanari þessu.“

Jón Axel hefur leikið með Davidson í bandaríska háskólaboltanum NCAA undanfarin ár og mun gera einn vetur í viðbót. Hann fær ekki leyfi til að spila með landsliðinu á veturna. Hann á því ekki marga landsleiki að baki. Spilaði fyrstu A-landsleiki sína á Smáþjóðaleikunum í San Marínó 2017 og var með landsliðinu í leikjum síðasta sumar. Þess á milli hefur hann ekki getað verið með en virðist ótrúlega fljótur að finna taktinn því hann hefur nú verið stigahæstur tvo leiki í röð. 

„Þjálfararnir gáfu mér strax sjálfstraust og ég fann að ég fékk strax traust frá leikmönnum líka. Það gefur manni auka sjálfstraust. Fyrir vikið kom ég ákveðinn inn í leikina og tilbúinn í allt,“ sagði Grindvíkingurinn í samtali við mbl.is í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert