Kristófer gæti verið lengi frá keppni

Kristófer Acox
Kristófer Acox mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleiksmaðurinn Kristófer Acox gæti verið lengi frá vegna ökklameiðsla en hann leikur með Íslandsmeisturum KR og íslenska landsliðinu.

Kristófer greinir frá meiðslum sínum í viðtali við RÚV og segir að gömul ökklameiðsli frá tímum hans í háskólaboltanum í Bandaríkjunum árið 2014 séu að taka sig upp á nýjan leik. „Ég brotnaði þegar ég var úti og þá voru settar tvær skrúfur í beinið sem áttu að hjálpa því að gróa aftur. Það hefur ekkert verið vesen síðan ég fór í aðgerðina en ég byrjaði að finna fyrir eymslum í úrslitakeppninni,“ segir hann meðal annars í viðtalinu en KR varð Íslandsmeistari sjötta árið í röð eftir sigur á ÍR í úrslitaeinvíginu í maí.

„Það kom í ljós að skrúfurnar eru ekki lengur í beininu og beinið er sem sagt brotið í tvennt og skrúfurnar eru fastar í einhverjum lið þarna í ökklanum. Þetta er allt saman mjög illa farið, það er komin einhver gigt og liðirnir eru eitthvað leiðinlegir. Brjóskið í kring er líka eitthvað þunnt og einhver beinþynning þannig það er eiginlega allt í hakki.“

Næsta skref er að fjarlægja skrúfurnar en ef Kristófer þarf á aðgerð að halda mun hann vera frá í að minnsta kosti þrjá til fjóra mánuði og missa þar með af upphafi næsta keppnistímabils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert