Mesta eftirsjáin að hafa ekki leitað fyrr til læknis

Kristófer Acox átti frábært tímabil á síðustu leiktíð og var …
Kristófer Acox átti frábært tímabil á síðustu leiktíð og var valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristófer Acox, leikmaður KR og landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik, er í kapphlaupi við tímann um að vera klár í slaginn þegar tímabilið í úrvalsdeild karla hefst í byrjun október. Á miðvikudaginn í síðustu viku komst hann að því að gömul ökklameiðsli hefðu dregið dilk á eftir sér. Kristófer ökklabrotnaði árið 2014 þegar hann lék með Furman-skólanum í bandaríska háskólaboltanum og voru settar tvær skrúfur í beinið til þess að hjálpa því að gróa aftur. Skrúfurnar eru ekki lengur í beininu heldur fastar í lið í ökklanum og þarf Kristófer nú að gangast undir aðgerð til þess að fjarlægja skrúfurnar.

„Ég er í raun bara að bíða eftir því að fá tíma hjá lækninum. Ég fékk að vita það á miðvikudaginn í síðustu viku að ökklinn á mér væri ekki í góðu standi og núna er bara verið að vinna í því að reyna að koma mér að sem allra fyrst og ég er í raun bara að bíða eftir símtali eins og staðan er í dag. Skrúfurnar gera ekki neitt gagn og gera í raun bara illt verra eins og staðan er í dag. Það er engin ástæða til þess að vera með þær lengur og planið er að fjarlægja þær og sjá hvort bólgurnar í ökklanum lagast ekki í kjölfarið. Ef það gengur upp þyrfti ég að fara í einhverja endurhæfingu auðvitað en að sama skapi myndi ég sleppa við gifs og hækjur. Vonandi dugar að fjarlægja skrúfurnar og ég verð þá að öllum líkindum klár í upphafi tímabilsins en ef það dugar ekki þarf ég að fara í stærri og meiri aðgerð. Ef ég þarf að fara í stóra aðgerð eru litlar sem engar líkur á að ég verði byrjaður að spila fyrir áramót. Það mun taka mig allavega þrjá til fjóra mánuði að jafna mig ef ég fer í aðgerð og vel gæti farið svo að ég yrði ekki klár fyrr en úrslitakeppnin hefst, sérstaklega ef ég læt fjarlægja skrúfurnar en kemst svo að því eftir einn til tvo mánuði að ég þurfi að fara í aðgerð.“

Spenntur fyrir heilu tímabili

Kristófer var valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, annað árið í röð, þegar KR vann sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í röð. Leikmaðurinn viðurkennir að hann hafi verið orðinn spenntur fyrir komandi tímabili með KR sem hefur styrkt sig vel í sumar.

„Þetta er fyrst og fremst leiðinlegt því ég var orðinn mjög spenntur fyrir komandi tímabili. Ég sé mest eftir því að hafa ekki bara farið strax til læknis þegar ég fór að finna fyrir þessu í ökklanum. Ég hélt að ég gæti í raun bara spilað í gegnum sársaukann undir lok síðustu leiktíðar, hvílt vel í sumar og mætt svo ferskur til leiks í haust. Eftir að hafa komist að því að það væri allt í rugli í ökklanum á mér sé ég auðvitað mikið eftir því að hafa ekki látið athuga þetta fyrr. Að sama skapi finn ég ekki mikið fyrir þessu og ég get bæði gengið og hlaupið þannig að ég er bara eins jákvæður og hægt er að vera. Vonandi lagast þetta við það eitt að fjarlæga skrúfurnar og ég held í vonina um að það muni gerast.“

Þeir Brynjar Þór Björnsson, Jakob Örn Siguðarson og Matthías Orri Sigurðarson sömdu allir við KR fyrr í sumar og var Kristófer orðinn spenntur að spila með þeim og sér í lagi Matthíasi, en þeir eru æskuvinir og spiluðu saman upp yngri flokkana með KR.

„Við snúum aftur til æfinga á næstu dögum og ég mun ekki geta tekið þátt í þeim æfingum. Ég verð eitthvað í húsi að sniglast í kringum strákana þótt það sé ekki eins. Við erum búnir að styrkja okkur og það er leiðinlegt að gera ekki byrjað að æfa af fullum krafti með til dæmis Matta, sem ég var orðinn mjög spenntur að spila með á nýjan leik. Það er frábært að fá Brynjar og Jakob aftur og ég tel okkur vera með mjög spennandi lið í ár. Sjálfur var ég orðinn spenntur að ná loksins heilu tímabili en nú gæti það allt eins farið svo að ég missti af öllu tímabilinu, það kemur í ljós.“

Aðrir þurfa að stíga upp

Pavel Ermolinskij, liðsfélagi Kristófers til fjölda ára í KR, söðlaði um í síðustu viku og skrifaði undir tveggja ára samning við Val. Þá voru Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon báðir orðaðir við Valsmenn eftir að Pavel skrifaði undir en Kristófer segist aldrei hafa haft mikla trú á því að Jón Arnór og Helgi myndu skrifa undir hjá öðru liði en KR.

„Það er auðvitað allt slæmt að missa leikmann eins og Pavel, bæði fyrir mig og liðið. Við náðum alltaf mjög vel saman inni á vellinum en að sama skapi vonast maður til þess að leikmenn eins og Matti og Jakob stígi upp núna. Við erum með fáránlega hæfileikaríkan hóp og þótt það hafi verið mjög slæmt að missa Pavel tel ég okkur eiga að ráða við þetta brotthvarf. Ég held að fjölmiðlar hafi kannski gert meira úr þessu en til stóð með Helga og Jón. Ég skal alveg viðurkenna það að ég varð smá smeykur þegar ég sá að Pavel var kominn í Val en eftir því sem ég best veit kom það aldrei til greina að Jón Arnór eða Helgi færu þangað líka,“ sagði Kristófer Acox í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert