Martröð Íslands og EM-draumurinn úti

Martin Hermannsson einbeittur með boltann gegn Sviss í kvöld.
Martin Hermannsson einbeittur með boltann gegn Sviss í kvöld. Ljósmynd/FIBA Europe

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik fór afar illa að ráði sínu þegar liðið heimsótti Sviss í lokaleik sínum í forkeppni EM 2021. Ísland mátti tapa með 19 stigum án þess að það kæmi í veg fyrir sigur liðsins í riðlinum, en Sviss gerði sér lítið fyrir og vann með 24 stigum, 109:85, og tryggði sér þar með sæti í undankeppni EM sem hefst í febrúar. Ísland er hins vegar úr leik.

Íslenska liðið var með yfirhöndina í fyrsta leikhluta þar sem Martin Hermannsson setti tóninn með 10 stigum á fyrstu þremur mínútunum. Að loknum leikhlutanum var Ísland fjórum stigum yfir 29:25.

Í öðrum leikhluta hrukku Svisslendingar í gang á meðan varnarleikurinn fór að hökta hjá Íslandi. Roberto Kovac, sem mun spila með ÍR hér heima í vetur, fór mikinn hjá Sviss og sýndi hversu góður skotmaður hann er. Þegar flautað var til hálfleiks var Sviss komið sjö stigum yfir, 54:47.

Svisslendingar voru áfram grimmir í þriðja leikhluta og voru ávallt um 12 stigum yfir. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 77:66 fyrir Sviss.

Æsispennandi lokasekúndur

Þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta náðu Svisslendingar 20 stiga forskoti í fyrsta sinn, 86:66, og sáu svart á hvítu að möguleikinn að komast áfram og vinna upp 19 stiga stigamun Íslands var raunhæfur. Íslenska liðið náði ekki að keyra á Svisslendinga til baka og þegar mínúta var eftir var staðan 103:80 fyrir Sviss.

Ísland þurfti að sækja fimm stig á síðustu 30 sekúndunum. Clint Capela, leikmaður Houston Rockets í NBA-deildinni, varði mikilvægt skot og í kjölfarið skoruðu Svisslendingar úr víti. Hlynur Bæringsson skoraði hins vegar úr tveimur vítaskotum og staðan 105:82 þegar 17 sekúndur voru eftir. Þarna þurfti Ísland að sækja fjögur stig.

Ísland braut strax í sókn Sviss, en því miður fyrir íslenska liðið skoruðu Svisslendingar úr báðum vítaskotum sínum. Þarna þurfti að sækja sex stig á síðustu 13 sekúndunum. Elvar Friðriksson setti niður þrist en Sviss svaraði með tveimur vítaskotum og lokatölur 109:85.

Þetta þýðir að Sviss vinnur riðilinn í forkeppninni og kemst áfram í undankeppnina sem hefst í febrúar. Ísland situr hins vegar eftir og á ekki möguleika á því að komast í þriðju lokakeppni EM í röð.

Martin Hermannsson var allt í öllu hjá Íslandi með 28 stig en næstur kom Tryggvi Snær Hlinason með 14 stig. ÍR-ingurinn tilvonandi, Roberto Kovac, fór fyrir Svisslendingum með 29 stig.

Sviss 109:85 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert