Nýtt áhugamál á döfinni

Bryndís Guðmundsdóttir er sexfaldur Íslandsmeistari í körfuknattleik og fjórfaldur bikarmeistari.
Bryndís Guðmundsdóttir er sexfaldur Íslandsmeistari í körfuknattleik og fjórfaldur bikarmeistari. mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleikskonan Bryndís Guðmundsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir afar farsælan feril með Keflavík, KR, Snæfelli, belgíska liðinu Royal Charleroi og íslenska landsliðinu en hún er 31 árs gömul. Hún á að baki 44 landsleiki fyrir Ísland en gömul krossbandsslit hafa dregið ákveðinn dilk á eftir sér og eru ein ástæða þess að hún hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna á þessum tímapunkti.

„Þetta var erfið ákvörðun að taka og mann kítlar alveg vel í puttana núna þegar tímabilið er að fara af stað,“ sagði Bryndís í samtali við Morgunblaðið í gær. „Að sama skapi þarf maður líka að hugsa um heilsuna enda er hún númer eitt tvö og þrjú. Ég er með barn og fjölskyldu og núna fer maður að sinna því. Núna verður maður heima hjá sér seinni partinn og notar svo kvöldin í það að skella sér á leiki og horfa á úr stúkunni sem verður ágætis tilbreyting. Þó það sé erfitt að kveðja körfuboltann er kannski kominn tími á að fara að snúa sér að einhverju öðru og finna sér kannski ný áhugamál.“

Tvennurnar eftirminnilegar

Bryndís sleit krossband árið 2007 og gáfu læknar henni fimm til fimmtán ár í körfuboltanum eftir það. Hún var í leikmannahóp íslenska landsliðsins sem tók þátt á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í sumar þar sem Ísland hreppti silfur en Bryndís fór að finna fyrir meiðslum í hné í aðdraganda mótsins.

„Ég fann mjög lítið fyrir þessum meiðslum á síðasta tímabili enda dreifist álagið jafnt og þétt yfir veturinn. Ég fór í myndatöku í janúar á þessu ári og eftir hana var mér tjáð af læknum að það væri kominn tími til þess að huga að því að draga aðeins úr hlaupunum og álaginu. Daginn áður en við förum svo út á Smáþjóðaleikana þá byrja ég að finna fyrir eymslum í hnénu og þetta versnaði mikið eftir því sem leið á keppnina. Það var læknir þarna úti sem skoðaði myndirnar aftur af hnénu á mér og eftir samtal við hann var ákvörðunin um að hætta ekki erfið heldur meira leiðinleg.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert