Ástralar í undanúrslit á HM í fyrsta sinn

Patty Mills skoraði 24 stig fyrir Ástrala.
Patty Mills skoraði 24 stig fyrir Ástrala. AFP

Ástralar tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitunum á heimsmeistaramótinu í körfuknattleik í Kína þegar þeir báru sigurorð af Tékkum 80:72 í síðasta leiknum í undanúrslitunum.

Ástralar voru skrefinu á undan Tékkunum allan leikinn og í fyrsta skipti leika þeir í undanúrslitunum á HM en þetta er í tólfta sinn sem þeir taka þátt í úrslitakeppninni. Ástralía mætir Spáni í undanúrslitunum á föstudaginn en í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Frakkland og Argentína.

Patty Mills leikmaður San Antonio Spurs í NBA-deildinni skoraði 24 stig fyrir Ástrala, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar og Chris Goulding kom næstur með 14 stig. Hjá Tékkum var Patrik Auda atkvæðamestur en hann skoraði 21 stig og Tomas Satoransky skoraði 13.

mbl.is