Bandaríkin úr leik

Evan Fournier átti stórleik í dag og lætur hér vaða …
Evan Fournier átti stórleik í dag og lætur hér vaða á körfu Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkjamenn eru úr leik á HM karla í körfuknattleik í Kína eftir tap fyrir Frakklandi í 8-liða úrslitum í dag. Bandaríkin hafa unnið síðustu tvær keppnir, 2010 og 2014, en nú er ljóst að Bandaríkjamenn verja ekki heimsmeistaratitilinn. 

Frakkar sem voru með Íslendingum í riðli í lokakeppni EM fyrir tveimur árum í Helsinki voru mjög sannfærandi í dag. Þeir voru yfir lengi vel eftir að þeir náðu forskoti í öðrum leikhluta. 

Leikurinn var hins vegar spennandi lengst af í fjórða leikhluta. Bandaríkjamenn fóru illa að ráði sínu á lokakaflanum þegar þeir brenndu af sex vítum af sjö. Frakkland vann með tíu stiga mun 89:79 þegar uppi var staðið. 

Spánn og Argentína eru einnig komin í undanúrslit eins og Frakkar. Ástralía og Tékkland mætast í dag. 

Bakvörðurinn Evan Fournier skoraði 22 stig fyrir Frakkland og Donovan Mitchell skoraði 29 stig fyrir Bandaríkin. 

mbl.is