Argentína mætir Spáni í úrslitum

Luis Scola átti stórleik fyrir Argentínu í dag og skoraði ...
Luis Scola átti stórleik fyrir Argentínu í dag og skoraði 28 stig. AFP

Argentína og Spánn mætast í úrslitaleik HM karla í körfuknattleik sem fram fer í Kína en þetta varð ljóst eftir sigur Argentínu gegn Frökkum í undanúrslitum í dag. Leiknum lauk með fjórtán stiga sigri Argentínu, 80:66, en Argentína var með frumkvæðið í leiknum allan tímann.

Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21:18, Argentínu í vil, og liðið jók forskot sitt svo í öðrum leikhluta og munaði sjö stigum á liðunum í háfleik, 39:32. Argentína vann þriðja leikhluta með fimm stigum og Frökkum tókst ekki að koma til baka eftir það.

Luis Scola átti stórleik fyrir Argentínu og skoraði 28 stig, tók þrettán fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Hjá Frökkum voru það Evan Fournier og Frank Ntilikina sem voru stigahæstir með 16 stig hvor.

Argentína mætir því Spánverjum í úrslitum en Spánn vann í morgun 95:88-sigur gegn Ástralíu í tvíframlengdum leik í hinu undanúrslitaeinvíginu. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn kemur og hefst klukkan 12 að íslenskum tíma.

mbl.is