Ástralar æfir eftir tapið gegn Spánverjum

Andrew Bogut sækir að körfunni í dag. Hann gæti átt ...
Andrew Bogut sækir að körfunni í dag. Hann gæti átt von á refsingu fyrir munnsöfnuð eftir leikinn. AFP

Andrew Bogut, landsliðsmaður Ástralíu í körfuknattleik, og Luc Longley, aðstoðarþjálfari liðsins, gætu átt yfir höfði sér refsingu frá alþjóðakörfuknattleikssambandinu (FIBA) eftir skrípalæti og æsingarræður í kjölfar undanúrslitaleiksins gegn Spánverjum á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Kína.

Ástralía tapaði 95:88 í ótrúlegum tvíframlengdum leik eftir að vafasamt atvik átti sér stað undir lok venjulegs leiktíma. Leikurinn var hnífjafn lengst af en Spánverjar komust einu stigi yfir þegar fjórar sekúndur voru eftir en í aðdraganda þess virtist vera brotið á Bogut. Patty Mills, leikmaður Ástr­al­íu, fékk gullið tæki­færi til þess að tryggja Áströlum sig­ur þegar hann var send­ur á vítalín­una. Mills hitti úr fyrra vít­inu en brenndi af því seinna og því var gripið til fram­leng­ing­ar. Staðan var áfram jöfn eftir fyrri framlenginguna en Spánverjar reyndust sterkari í þeirri síðari og munu mæta Argentínu í úrslitaleiknum.

„Farið á Google og flettið upp hvar höfuðstöðvar FIBA eru,“ gargaði hundsvekktur Bogut meðal annars til fjölmiðla er ósáttir leikmenn og þjálfarar Ástralíu gengu í gegnum fjölmiðlasvæðið eftir leik, „þetta er til háborinnar skammar!“

Skömmu áður hafði Bogut gefið handabendingar til áhorfenda þar sem hann gaf í skyn að dómurum leiksins hefði verið mútað. Líklegt er að FIBA muni rannsaka málið og þá mögulega sekta leikmanninn fyrir athæfið. Ummælin verða þó að teljast áhugaverð í ljósi þess að höfuðstöðvar FIBA eru í Sviss.

Þá sagði Longley heilladísirnar ekki með Áströlum en með orðbragði sem verður ekki haft eftir hér. Körfuboltaguðirnir eru þó hliðhollari Spánverjum ef marka má ummæli hans, þar sem hann fer vítt og breitt yfir leikinn og ræðir meðal annars um kynfæri leikmanna. Ástralar mæta Frökkum í leik um bronsverðlaun mótsins á sunnudaginn. Síðar sama dag fer fram úrslitaleikur Argentínu og Spánar.

mbl.is