Serbar tóku fimmta sætið

Bogdan Bogdanovic var drjúgur í dag.
Bogdan Bogdanovic var drjúgur í dag. AFP

Serbía hafnaði í fimmta sæti heimsmeistaramótsins í körfuknattleik sem fram fer í Kína með því að leggja Tékkland að velli, 90:81, í Beijing í dag. Bæði lið duttu úr keppni í 8-liða úrslitunum, Serbar féllu úr leik gegn Argentínu og Tékkland gegn Ástralíu.

Það voru Tékkar sem komu sterkari til leiks og, eftir jafnan fyrsta leikhluta, höfðu níu stiga forystu í hálfleik, 50:41. Serbar færðu sig hins vegar snögglega upp á skaftið eftir hlé og allt fór í baklás hjá Tékkum sem skoruðu ekki nema 31 stig í síðari hálfleik.

Bogdan Bogdanovic var maður leiksins, skoraði 31 stig fyrir Serba ásamt því að taka fjögur fráköst og gefa fjórar stoðsendingar en Patrik Auda skoraði mest fyrir Tékkland, 16 stig. Serbar enda því í fimmta sæti og Tékkar í því sjötta.

Á morgun fara síðustu tveir leikir mótsins fram, Frakkland og Ástralía keppa um bronsið í fyrramálið og Argentína og Spánn mætast í úrslitaleiknum í hádeginu.

mbl.is