Óskabyrjun Elvars með nýja liðinu

Elvar Már Friðriksson í leik með Njarðvík síðasta vetur.
Elvar Már Friðriksson í leik með Njarðvík síðasta vetur. mbl.is/Hari

Elvar Már Friðriksson landsliðsmaður í körfuknattleik hefur farið vel af stað með sínu nýja liði, Borås í Svíþjóð, en í gær vann liðið Köping Stars á útivelli í annarri umferð sænsku bikarkeppninnar, 82:77.

Elvar var stigahæsti leikmaður liðsins með 17 stig, átti flestar stoðsendingar, fjórar talsins, tók ásamt liðsfélaga sínum flest fráköst, fimm talsins.

Elvar var næststigahæstur með 19 stig í síðustu viku þegar Borås vann auðveldan útisigur á Eskilstuna, 133:51, í fyrstu umferð bikarkeppninnar. 

Keppnin í sænsku úrvalsdeildinni hefst í næstu viku og þar spila Elvar og félagar einmitt gegn Köping Stars í fyrstu umferðinni á heimavelli sínum á föstudagskvöldið kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert